Stungu Svíana af í seinni hálfleik

Sander Sagosen og félagar í norska liðinu fóru illa með …
Sander Sagosen og félagar í norska liðinu fóru illa með Svía. Sagosen skoraði 4 mörk. AFP

Norðmenn léku Svía grátt þegar liðin mættust í EHF-Evrópubikar karla í handknattleik í Arendal í Noregi í dag. Lokatölur urðu 35:26 eftir magnaðan síðari hálfleik Norðmanna.

Svíar, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, voru yfir í hálfleik, 16:15. Norðmenn voru hinsvegar komnir með fimm marka forystu eftir tíu mínútur í síðari hálfleiknum og sænska liðið sá ekki til sólar eftir það. Norðmenn skoruðu 20 mörk gegn tíu í seinni hálfleik.

Magnús Jöndal var í miklum ham og skoraði 11 mörk úr jafnmörgum skotum en Göran Johannessen kom næstur með 6 mörk. Hjá Svíum var Jim Gottfridsson atkvæðamestur með 6 mörk.

Í EHF-Evrópubikarnum leika þær fjórar þjóðir sem eru með keppnisrétt á EM 2020, gestgjafaþjóðirnar Noregur, Svíþjóð og Austurríki, og ríkjandi Evrópumeistarar Spánverja. Spánn og Austurríki mætast í kvöld. Spánn og Noregur eru með 4 stig, Svíar 2 stig en Austurríkismenn ekkert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert