Kiel valtaði yfir Burgdorf í toppslag

Gísli Þorgeir Kristjánsson er frá keppni vegna meiðsla.
Gísli Þorgeir Kristjánsson er frá keppni vegna meiðsla.

Kiel er komið upp í þriðja sæti þýsku 1. deildarinnar í handbolta eftir afar sannfærandi 32:23-sigur á Hannover Burgdorf á heimavelli í dag.

Kiel var með undirtökin allan tímann og var staðan 17:12 í hálfleik. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki með Kiel vegna meiðsla á öxl sem hann varð fyrir á dögunum.

Filip Jicha er þjálfari Kiel, en hann tók við af Alfreð Gíslasyni fyrir tímabilið, eftir að Alfreð hafði stýrt því í ellefu ár.

Kiel er með 18 stig, tveimur minna en Hannover Burgdorf og ríkjandi meistararnir í Flensburg, en liðið á tvo leiki til góða og getur því komist í toppsætið.

mbl.is