Uppselt á leik Íslendinga og Dana á EM

Íslendingar ætla að fjölmenna til Malmö.
Íslendingar ætla að fjölmenna til Malmö. mbl.is/Golli

Uppselt er á leik heimsmeistara Dana og Íslendinga í 1. umferð riðlakeppni Evrópumóts karlalandsliða í handknattleik en Evrópumótið fer fram í janúar þar sem spilað verður í þremur löndum, Svíþjóð, Noregi og Austurríki.

Riðill Íslands verður spilaður í Malmö Arena sem tekur 15 þúsund manns og að því er fram kemur í sænska blaðinu Expressen er uppselt á leik Dana og Íslendinga sem eigast við 11. janúar. Í riðlinum leika einnig Rússland og Ungverjaland. Fjölmargir Íslendingar ætla að leggja leið sína til Malmö og styðja við bakið á íslenska liðinu.

Uppselt er á fleiri leiki á mótinu en mestur áhugi er fyrir leikjum Dana og Svía en Svíar spila sína leiki í Skandivavium-höllinni í Gautaborg sem tekur 11.500 manns.

24 þjóðir taka þátt á EM og er riðlaskiptingin þessi:

A-riðill (Graz í Austurríki): Króatía, H-Rússland, Svartfjallaland, Serbía.

B-riðill (Vín í Austurríki): Tékkland, N-Makedónía, Austurríki, Úkraína.

C-riðill (Þrándheimur í Noregi): Spánn, Þýskaland, Lettland, Holland.

D-riðill (Þrándheimur í Noregi): Frakkland, Noregur, Portúgal, Bosnía.

E-riðill (Malmö í Svíþjóð): Danmörk, Ungverjaland, ÍSLAND, Rússland.

F-riðill (Gautaborg í Svíþjóð): Svíþjóð, Slóvenía, Sviss, Pólland.

Tvær efstu þjóðirnar í riðlum A, B og C spila í milliriðli í Vín 17.—22. janúar og tvær efstu þjóðirnar í riðlum D, E og F riðlum spila í milliriðli í Malmö sömu daga.

Undanúrslitin, úrslitaleikurinn, leikurinn og bronsverðlaunin og leikurinn um 5. sætið fara fram í Tele 2-höllinni í Stokkhólmi 24.—26. janúar en höllin tekur 20 þúsund áhorfendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert