Ekkert annað í stöðunni en að stökkva aftur á hestinn

Alexander Örn Júlíusson
Alexander Örn Júlíusson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst við missa skipulagið undir lok seinni hálfleiks,“ sagði Alexander Örn Júlíusson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is um hvað fór úrskeiðis í 26:30-tapi fyrir Haukum í 16-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í handbolta í kvöld. 

Ýmir Örn Gíslason, einn besti varnarmaður Vals, fékk beint rautt spjald snemma leiks, en það virtist ekki hafa mikil áhrif á spilamennsku Valsmanna. 

„Fram að því hafði það styrkt okkur að missa Ými út af með rautt, en svo riðlast skipulagið og við missum sjálfstraustið og svo förum við með dauðafæri og víti o.s.frv. Við erum inn í þessum leik að öllu leyti og það er synd að við höfðum ekki gert betur, við vorum í dauðafæri til að klára þetta.“

Andri Sigmarsson Scheving í marki Hauka varði sautján skot í markinu og þar af þrjú víti. Hinum megin var markvarslan slök, bæði hjá Daníel Frey Andréssyni og Hreiðari Levý Guðmundssyni. 

„Hann stóð sig vel, en það er ekki alveg að marka tölfræði markmannanna okkar í þessum leik miðað við hvað vörnin lak," sagði Alexander, en fyrir leikinn hafði Valur unnið fjóra deildarleiki í röð og komist áfram í Áskorendabikar Evrópu. 

„Við erum búnir að vera á mjög góðu skriði og komumst áfram í Evrópukeppni og erum búnir að vinna fjóra leiki í röð í deild. Það er ekkert annað í stöðunni en að stökkva aftur á hestinn og fara aftur af stað," sagði hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert