Rússar hrepptu bronsið gegn Þóri

Anna Vyakhireva skoraði níu mörk fyrir Rússland og var valin …
Anna Vyakhireva skoraði níu mörk fyrir Rússland og var valin besti leikmaður leiksins. Hér skýtur hún að marki Norðmanna í leiknum í morgun. Ljósmynd/IHF

Rússland vann til bronsverðlauna á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik eftir 33:28-sigur á Noregi í Kumamoto í morgun. Þetta er í fyrsta sinn sem Rússland vinnur til verðlauna síðan 2009 en sömuleiðis í fyrsta sinn sem Noregur vinnur ekki til verðlauna eftir að hafa komist í undanúrslit undir stjórn Þóris Hergeirssonar.

Norðmenn hófu leikinn betur, skoruðu fyrstu þrjú mörkin og voru 7:5-yfir eftir tíu mínútur, fyrst og fremst þökk sé Silje Solberg í markinu sem varði m.a. vítakast í upphafi leiks. Rússarnir áttu hins vegar eftir að færa sig upp á skaftið.

Staðan var 7:7 um miðjan fyrri hálfleik og sterkur 5:0-kafli liðsins skömmu fyrir hlé sá til þess að staðan var 13:9 í hálfleik, Rússum í vil. Anna Vyakhireva var markahæst með níu mörk fyrir Rússland en þær Emilie Hegh Arntzen og Stine Bredal Oftedal skoruðu báðar sjö mörk fyrir Noreg.

Rússar gáfu forystuna ekki frá sér í síðari hálfleik og voru verðskuldaðir sigurvegarar í leikslok. Holland og Spánn mætast í úrslitaleiknum klukkan 11:30.

mbl.is