Eiga Norðmenn besta handboltamann heims í dag?

Sander Sagosen fagnar einu af 8 mörkum sínum í 23:20 …
Sander Sagosen fagnar einu af 8 mörkum sínum í 23:20 sigri Norðmanna á Svíum á sunnudagskvöldið. AFP

Ljóst er að ef Íslendingar ætla að gera sér vonir um að sigra öflugt lið Norðmanna á Evrópumóti karla í Malmö í dag þarf að sjá til þess að Sander Sagosen, sem margir telja besta handknattleiksmann heims um þessar mundir, nái ekki að sýna sínar bestu hliðar.

Þessi 24 ára gamli leikstjórnandi hefur farið á kostum með Norðmönnum á mótinu og verið í fararbroddi í sigurleikjunum fimm til þessa. Hann hefur þegar skorað 42 mörk og átt 33 stoðsendingar en hann er bæði markahæsti og stoðsendingahæsti leikmaður keppninnar  hingað til.

Sagosen, sem er samherji Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá París SG, varð í leiknum gegn Svíum á sunnudagskvöldið fyrsti norski leikmaðurinn til að skora 100 mörk í lokakeppni EM. Hann er nú kominn með 105 mörk samtals og hirti norska metið í keppninni af Håvard Tveiten sem skoraði 98 mörk samtals á EM. Sagosen náði þessu í 22 leikjum en Tveiten lék 24 leiki.

Sagosen er frá Þrándheimi og hóf ferilinn með heimaliðinu Kolstad en lék síðan eitt tímabil með Haslum. Nítján ára gekk hann til liðs við Aalborg í Danmörku og lék þar í þrjú ár en gekk til liðs við París SG 2017. Það var einmitt Janus Daði Smárason leikstjórnandi íslenska landsliðsins sem fyllti skarð hans hjá Álaborgarliðinu.

Norðmenn hafa með Sagosen í aðalhlutverki fengið silfurverðlaun á tveimur síðustu heimsmeistaramótum en þeir töpuðu úrslitaleik gegn Frakklandi 2017 og gegn Danmörku 2019. Nú eru bæði Frakkar og Danir úr leik og því beinast margra augu að Norðmönnum þegar spáð er í hvaða lið verði krýndur Evrópumeistari í Stokkhólmi á sunnudaginn kemur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert