Spánverjar mæta Króötum í úrslitum

Spánverjar fagna eftir að hafa tryggt sér sæti í úrslitum …
Spánverjar fagna eftir að hafa tryggt sér sæti í úrslitum á EM. AFP

Spánn leikur til úrslita gegn Króatíu á Evrópumótinu í handknattleik sem fram fer í Austurríki, Noregi og Svíþjóð eftir tveggja marka sigur gegn Slóveníu í undanúrslitum keppninnar í Stokkhólmi í kvöld. Leiknum lauk með 34:32-sigri Spánverja sem voru með yfirhöndina í leiknum allan tímann.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með en eftir fimmtán mínútna leik sigu Spánverjar hægt og rólega fram úr og þeir leiddu með fimm mörkum í hálfleik, 20:15. Spánverjar leiddu með fjórum mörkum þegar tíu mínútur voru til leiksloka, 29:25, og þrátt fyrir að Slóvenum hafi tekist að minnka muninn í tvö mörk undir restina dugði það ekki til.

Raúl Enterríos og Alex Dujshebaev voru markahæstir í liði Spánverja en þeir skoruðu sex mörk hvor. Jure Dolence var markahæstur í liði Slóvena með sjö mörk. Spánverjar mæta Króötum í úrslitaleik í Stokkhólmi á sunnudaginn kemur en Króatar unnu Norðmenn eftir tvíframlengdan leik fyrr í dag. Slóvenar leika um 3. sætið gegn Norðmönnum í Stokkhólmi á morgun.

mbl.is