Bjarki raðar inn mörkum - skoraði tíu í Íslendingaslag

Bjarki Már Elísson skorar úr vítakasti.
Bjarki Már Elísson skorar úr vítakasti. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Bjarki Már Elísson lék mikið að sér kveða rétt eina ferðina með Lemgo í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld þegar lið hans náði nokkuð óvæntu jafntefli gegn Rhein-Neckar Löwen á útivelli, 29:29.

Bjarki skoraði 10 mörk í leiknum, úr 11 skotum, og jók forskot sitt sem markahæsti leikmaður deildarinnar en hann hefur nú skorað 189 mörk í 24 leikjum Lemgo í vetur, ellefu mörkum meira en næsti maður sem er hinn íslenskættaði Hans Óttar Lindberg hjá Füchse Berlín. 

Alexander  Petersson skoraði tvö mörk fyrir Löwen í leiknum og Ýmir Örn Gíslason eitt en Kristján Andrésson þjálfar liðið. Löwen er í sjötta sæti deildarinnar en Lemgo er í tíunda sætinu.

Oddur Gretarsson skoraði 2 mörk fyrir Balingen sem steinlá fyrir Kiel á heimavelli, 20:32. Balingen er í 16. sæti af 18 liðum, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

Elvar Ásgeirsson og félagar í Stuttgart náðu dýrmætum stigum í botnbaráttunni með því að sigra Erlangen á heimavelli, 30:24. Elvar skoraði ekki í leiknum en Stuttgart er í 15. sæti, tveimur stigum á undan Balingen.

Nordhorn, undir stjórn Geir Sveinssonar, steinlá á heimavelli fyrir Göppingen, 20:30, og er langneðst í deildinni með 2 stig.

Kiel er með 40 stig á toppnum eftir leiki kvöldsins, fjórum meira en Flensburg sem á leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert