Ólafur í sjö manna draumaliði: Setti mark sitt á handboltann

Ólafur Stefánsson í leik með danska liðinu AG Köbenhavn.
Ólafur Stefánsson í leik með danska liðinu AG Köbenhavn. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Johannes Bitter, þýski landsliðsmarkvörðurinn í handknattleik, segir að Ólafur Stefánsson sé besta örvhenta skytta sem hann spilaði með eða á móti á ferlinum.

Bitter er 37 ára gamall og hefur spilað í þýsku Bundesligunni samfleytt frá 2002. Hann missti naumlega af því að spila við hlið Ólafs í Magdeburg, kom þangað sama sumarið og Ólafur flutti til Spánar, en spilaði oft á móti honum, með félagsliði og landsliði.

Markvörðurinn var beðinn um að velja sjö manna draumalið úr þeim stóra hópi leikmanna sem hann hefur spilað með og á móti á löngum ferli og það birtist á Youtube-síðu þýsku Bundesligunnar. Ólafur er ekki eini Íslandstengdi leikmaðurinn í draumaliðinu því þar er líka Hans Óttar Lindberg, danski landsliðsmaðurinn sem á íslenska foreldra.

Auk Ólafs og Hans Óttars eru markvörðurinn Andrei Lavrov og þeir Lars Christiansen, Pascal Hens, Stefan Lövgren og Magnus Wislander í draumaliðinu hjá Bitter. Markvörðurinn velur aðeins einn þýskan leikmann, Pascal Hens, í sjö manna liðið, hinn rússneska Lavrov og síðan fimm Norðurlandabúa.

Í myndskeiðinu segir Bitter um Ólaf:

Hægri skytta: „Fyrir mér er það Ólafur Stefánsson, ég kom því miður ári of seint til Magdeburgar og hann var þá því miður farinn. Við spiluðum mjög oft gegn hvor öðrum,“ segir hann og bætir við að hann hafi varið tíma með honum vegna þess að það hafi verið kunningsskapur milli liða og hann hafi heimsótt hann á Spáni.

„Hann setti mark sitt á handboltann, var geðveikt góður bæði í sókn og í vörn, var góð vítaskytta og var einfaldlega persónuleiki sem sá allan heiminn í samhengi, ekki bara handboltann, heldur einnig aðra hluti. Honum fylgdi einnig léttleiki og hann gat verið ótrúlega afkastamikill.“

mbl.is