Sneru leiknum sér í vil í Hafnarfirði

Einar Rafn Eiðsson í baráttunni við Róbert Aron Hostert í …
Einar Rafn Eiðsson í baráttunni við Róbert Aron Hostert í Kaplakrika í dag. mbl.is/Íris

Valsmenn fara vel af stað í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, en liðið vann þriggja marka sigur gegn FH í Kaplakrika í Hafnarfirði í 1. umferð deildarinnar í dag.

Leiknum lauk með 33:30-sigri Vals en FH leiddi með einu marki í hálfleik 15:14.

Hafnfirðingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu fjögurra marka forskoti, 10:6, eftir um fimmtán mínútna leik. 

Liðin skiptust á um að skora eftir það en Valsmenn náðu að laga stöðuna undir lok fyrri hálfleiks og minnka forskot FH í eitt mark.

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og náðu fljótlega  tveggja marka forskoti, 20:18.

Valsmenn náðu mest þriggja marka forskoti í síðari hálfleik og sá munur hélst á liðunum allt til enda.

Finnur Ingi Stefánsson skoraði sjö mörk fyrir Val og Magnús Óli Magnússon sex. Þá varði Einar Baldvin Baldvinsson tólf skot í marki Valsmanna.

Hjá FH var Ásbjörn Friðriksson markahæstur með níu mörk og Ásgúst Birgisson skoraði fimm. Phil Döhler varði fimmtán skot í markinu.

Valsmenn fara með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar með tvö stig en FH er í ellefta sætinu án stiga.

Einar Rafn Eiðsson reynir skot að marki Valsmanna.
Einar Rafn Eiðsson reynir skot að marki Valsmanna. mbl.is/Íris
mbl.is