Hefði 100 prósent valið Ísland frekar en Noreg

Óskar Ólafsson var valinn í íslenska karlalandsliðið í fyrsta sinn …
Óskar Ólafsson var valinn í íslenska karlalandsliðið í fyrsta sinn á dögunum. Ljósmynd/Drammen

„Þetta kom mér á óvart, en ég er mjög glaður,“ sagði Óskar Ólafsson, nýjasti landsliðsmaður Íslands í handbolta, í samtali við Morgunblaðið. Óskar var valinn í landsliðshópinn sem mætir Litháen og Ísrael í undankeppni EM í næsta mánuði. Er leikurinn við Litháen 4. nóvember og leikurinn við Ísrael þremur dögum síðar.

Óskar rifjaði upp símtal við Gunnar Magnússon þar sem honum var tjáð að hann væri kominn í landsliðið. „Gunnar Magnússon hringdi í mig. Ég sá að þetta var íslenskt númer og ég vissi ekki hver þetta var, en svo heyrði ég að þetta væri Gunnar og hann vildi fá mig í landsliðsverkefnið. Ég var mjög glaður og þetta er afar spennandi.“

Eigum að vera sterkari

Leikstjórnandinn, sem er 26 ára, segir Ísland vera með betra lið en Litháen og Ísrael, en það verði að sýna það á vellinum. „Við eigum að vera sterkari en bæði Litháen og Ísrael og vonandi náum við að sýna það með tveimur góðum leikjum,“ sagði Óskar.

Óskar hefur áður spilað í íslensku landsliðstreyjunni en hann var í unglingalandsliðinu á árum áður. „Það eru örugglega komin sex eða sjö ár síðan. Ég man vel eftir þeim tíma og það var skemmtilegt. Ég var bæði með Sigvalda og Janusi í liði og svo var Sigvaldi auðvitað í Elverum í Noregi,“ sagði Óskar.

Hann viðurkennir að hafa ekki verið að hugsa sérstaklega um að vera kallaður upp í landsliðið. „Ég hef bara spilað hér í Noregi og ekki hugsað neitt rosalega mikið út í að vera kallaður upp í landsliðið. Maður hefur samt alltaf fylgst með liðinu,“ sagði leikmaðurinn.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert