Þurfum bara að hugsa um okkur

Ólafur Guðmundsson í leiknum gegn Portúgal á miðvikudaginn.
Ólafur Guðmundsson í leiknum gegn Portúgal á miðvikudaginn. Ljósmynd/FPA

„Leikurinn úti tapast á síðustu tíu mínútum og þar erum við að klúðra nokkrum dauðafærum. Við erum búnir að fara yfir það og ætlum að gera betur,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við mbl.is á Ásvöllum í dag.

Ólafur var að ræða naumt tap Íslands gegn Portúgal á útivelli í undankeppni EM á miðvikudaginn en þjóðirnar mætast aftur í sömu keppni á Ásvöllum annað kvöld. „Það sem við þurfum að laga er eitthvað sem við getum lagað á stuttum tíma, við vitum hvað þarf að gera og nýtum okar tíma í það. Það er leikur á morgun þar sem við viljum taka tvö stig og svo byrjar alvaran,“ sagði Ólafur og átti þar auðvitað við heimsmeistarakeppnina sem hefst í Egyptalandi í næstu viku.

Fyrsti leikur Íslands á HM verður 14. janúar, líka gegn Portúgal en það verður þriðja viðureign liðanna á níu dögum. „Það er skrítið að spila við þá þrisvar á stuttum tíma en ég veit ekki hvort þeir leggja þetta öðruvísi upp á morgun, það er svo sem ekkert sem við getum undirbúið okkur fyrir. Við þurfum bara að hugsa um okkur og við þurfum stig,“ sagði Ólafur við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert