Því miður fyrir okkur fór þetta svona

Sunna Jónsdóttir skorar eitt af sjö mörkum sínum í leiknum …
Sunna Jónsdóttir skorar eitt af sjö mörkum sínum í leiknum í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Sunna Jónsdóttir, leikmaður ÍBV í handknattleik, segir liðið geta tekið margt gott úr leik sínum gegn Fram í Olís-deildinni í dag, sem tapaðist með einu marki, 25:26. Sunna lék vel í leiknum og var markahæst Eyjastúlkna með sjö mörk.

Í samtali við mbl.is eftir leik sagði Sunna tapið vissulega svekkjandi. „Mjög svekkjandi. Þetta var hörkuleikur og tvö flott lið að mætast eftir langa pásu. Því miður fyrir okkur fór þetta svona.“

ÍBV var einu marki yfir, 14:13, í hálfleik en misstu niður forskot sitt snemma í þeim síðari. „Við komum frekar illa inn í seinni hálfleik og lendum fjórum mörkum undir. Við náðum ekki alveg að leysa 5-1 vörnina hjá þeim.

Þær eru náttúrulega með reynslumikið lið og kunna að vinna svona leiki. Við erum auðvitað rosalega svekktar en það er margt gott sem við getum tekið úr þessum leik. Svo þurfum við bara að skoða það sem fór ekki vel,“ bætti Sunna við.

Hún sagði ekkert annað koma til greina hjá liði ÍBV en að vera í toppbaráttu á tímabilinu. „Við sjáum að við erum alveg með lið í það. En við tökum bara einn leik í einu og ætlum okkur stóra hluti. Við erum með mjög flottan hóp og við bara höldum áfram,“ sagði Sunna að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert