Frá Hlíðarenda út á Seltjarnarnes

Einar Baldvin Baldvinsson.
Einar Baldvin Baldvinsson. ,mbl.is/Eggert Jóhannesson

Úrvalsdeildarlið Grótta í handknattleik hefur fengið Einar Baldvin Baldvinsson til liðs við sig frá Val en Seltirningar greindu frá þessu á facebooksíðu félagsins í kvöld. 

Einar Baldvin er 24 ára gamall og hefur varið markið hjá Val undanfarin ár. Hann er uppalinn í Víkingi en hefur einnig leikið með Selfossi. Auk þess hefur hann leikið fyrir öll yngri landsliðs Íslands.

Auk þess að leika með meistaraflokki fær Einar það hlutverk að sjá um markmannsþjálfun yngri markvarða hjá félaginu.

Ég er virkilega ánægður og spenntur fyrir þessu verkefni með Gróttu. Grótta er með ungt og spennandi lið, með mjög metnaðarfulla þjálfara og leikmenn. Ég hef fulla trú á því að þetta lið muni halda áfram að koma öllum á óvart og ætla ég að gera allt sem ég get til að hjálpa þeim að komast á þann stað sem þeir eiga heima. Grótta er glæsilegt lið með frábæra sögu, mikið af okkar fremsta íþróttafólki kemur frá Gróttu. Einnig algjör klassaumgjörð og liðsheildin er alveg til fyrirmyndar hjá þeim og því þurfti ég ekki hugsa mig tvisvar um þegar ég tók þetta skref,“ er haft eftir Einari í fréttatilkynningunni.

mbl.is