Jafnt í spennuleik í Mosfellsbæ

Blær Hinriksson úr Aftureldingu fer fram hjá Aka Egilsnes úr …
Blær Hinriksson úr Aftureldingu fer fram hjá Aka Egilsnes úr KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Afturelding og KA skildu jöfn, 27:27, í spennuleik í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, að Varmá í Mosfellsbæ í dag.

Liðin eru í harðri baráttu við Fram um  tvö sæti í úrslitakeppninni eins og staðan er núna en Afturelding og KA eru með 20 stig hvort og Fram er með 18 stig þegar þrjár umferðir eru eftir.

Leikurinn var hnífjafn fyrstu 20 mínúturnar og jafnt á nær öllum tölum fram að 10:10. Þá skoraði Afturelding fjögur mörk röð og var í framhaldi af því með þriggja marka forystu í hálfleik, 17:14.

Munurinn hélst síðan tvö til fjögur mörk, Aftureldingu í vil, þar til KA skoraði þrjú mörk í röð og jafnaði metin í 26:26 þegar fjórar mínútur voru eftir. Gríðarleg spenna var á lokamínútunum þar sem bæði lið fengu tækifæri til að skora í stöðunni 27:27 en það urðu lokatölurnar.

Mörk Aftureldingar: Úlfar Páll Monsi Þórðarson 7, Þorsteinn Leó Gunnarsson 6, Blær Hinriksson 5, Bergvin Þór Gíslason 4, Guðmundur Árni Ólafsson 3, Þrándur Gíslason Roth 1, Einar Ingi Hrafnsson 1.
Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 9/1 skot og Björgvin Franz Björgvinsson 2.

Mörk KA: Árni Bragi Eyjólfsson 8, Patrekur Stefánsson 7, Aki Egilsnes 5, Einar Birgir Stefánsson 4, Jón Heiðar Sigurðsson 1, Andri Snær Stefánsson 1, Ólafur Gústafsson 1.
Nicholas Satchwell varði 7/1 skot og Bruno Bernat 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert