Tap í erfiðum leik í Eskilstuna

Rut Jónsdóttir lék sinn 100. A-landsleik í kvöld.
Rut Jónsdóttir lék sinn 100. A-landsleik í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svíþjóð vann Ísland með þrettán marka mun 30:17 í undankeppni Evrópumóts kvenna í handknattleik í Eskilstuna í Svíþjóð í dag. 

Ísland átti nánast aldrei möguleika gegn firnasterku liði Svía en fyrsta mark Íslands kom á 8. mínútu. Vörn Svía fór illa með íslenska liðið í fyrri hálfleik og að honum loknum var staðan 14:5. 

Íslandi gekk betur að skora í síðari hálfleik en náði ekki að hleypa spennu í leikinn úr því sem komið var. 16:12 í síðari hálfleik er í sjálfu sér ekki slæmt miðað við hvar þessi lið standa í dag. En níu marka munur í fyrri hálfleik var full mikið. 

Serbar unnu Tyrki 36:27 í fyrsta leik riðilsins í gær en þessar fjórar þjóðir skipa 6. riðil undankeppninnar. Tvö efstu lið riðilsins komast í lokakeppnina sem fram fer í Slóveníu, Norður-Makedóníu og Svartfjallalandi í nóvember 2022.

Sóknarleikurinn gekk afar illa hjá íslenska liðinu og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Svíarnir komu fram á völlinn og náðu að komast inn í sendingar og/eða trufla leikmennina fyrir utan hjá íslenska liðinu. Fyrir vikið lauk mörgum sóknum án þess að Ísland næði skoti á markið. Frábær vörn skilaði Svíum mörgum einföldum mörkum úr hraðaupphlaupum og seinni bylgju. Í samanburði skoraði Ísland líklega eitt mark úr hraðaupphlaupi og eitt yfir völlinn í opið markið. Að öðru leyti þurfti Ísland að hafa mikið fyrir hverju marki. 

Við þessar aðstæður er erfitt að dæma vörnina hjá íslenska liðinu. Þegar Ísland náði að stilla upp í vörn þá leit hún ágætlega út. Sunna og Hildigunnur fyrir miðju með Theu og Lovísu sitt hvoru megin er til að mynda sterk varnarlína. Vörnin virtist geta staðið ágætlega miðað við að Svíþjóð er eitt besta lið í Evrópu. En auðveldara verður væntanlega að meta vörnina í leiknum á móti Serbíu á sunnudaginn. Í þetta skiptið náði Ísland ekki svo oft að komast til baka og stilla upp. 

Rut Jónsdóttir var á heildina litið best í sókninni hjá Íslandi í tímamótalandsleik sínum en Rut lék sinn 100. A-landsleik. Hún skoraði 3 mörk, gaf nokkrar stoðsendingar og komst nokkrum sinnum inn í sendingar. Thea Imani Sturludóttir skoraði 4 mörk og var markahæst. Íslenska liðið þarf á því að halda að hún og Ragnheiður Júlíusdóttir ógni af krafti því þær geta skotið af löngu færi. Í þessum leik þurfti oft að grípa til þess. 

Lovísa Thompson í landsleik gegn Svíum.
Lovísa Thompson í landsleik gegn Svíum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Svíþjóð 30:17 Ísland opna loka
60. mín. Tinna Sól Björgvinsdóttir (Ísland) skoraði mark Úr horninu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert