Meiddist aftur á sömu öxl

Janus Daði Smárason er að glíma við meiðsli.
Janus Daði Smárason er að glíma við meiðsli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Janus Daði Smárason, leikmaður Göppingen í þýsku 1. deildinni í handknattleik, er að glíma við meiðsli á öxl. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Leikstjórnandinn gekkst undir aðgerð á öxl í janúar á þessu ári en hann meiddist á sömu öxl í leik Göppingen og Melsungen á dögunum í Þýskalandi.

Vonir standa til þess að meiðslin séu ekki alvarleg og að hann þurfi ekki að gangast undir aðgerð vegna þeirra að því er fram kemur í tilkynningu Göppingen.

Janus Daði verður því fjarverandi þegar lið hans heimsækir Leipzig í þýsku 1. deildinni í dag.

Leikmaðurinn hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið undanfarin ár en hann hefur verið afar óheppinn með meiðsli síðasta árið.

mbl.is