Lovísa tekur sér frí

Lovísa Thompson hefur verið illviðráðanleg í íslensku deildinni síðustu árin.
Lovísa Thompson hefur verið illviðráðanleg í íslensku deildinni síðustu árin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lovísa Thompson, landsliðskona í handknattleik, er komin í frí frá íþróttinni og segist taka upp þráðinn ef áhuginn kviknar á ný. 

Lovísa hefur ekki leikið frá því hún meiddist  í landsleiknum gegn Svíum ytra á dögunum. Hún birti færslu á Instagram í dag þar sem hún útskýrir fjarveruna í síðustu leikjum Vals en færsluna birtir Lovísa á afmælisdegi sínum. 

Hún segist hafa misst áhugann á handboltanum og hafi ekki liðið vel á æfingum eða í leikjum. Erfitt sé að taka það skref að kúpla sig frá íþróttinni sem hefur sett svo mikinn svip á líf hennar en nauðsynlegt sé að staldra við og finna hvað veiti henni ánægju. 

Lovísa er einungis 22 ára en á þrátt fyrir það sjö ára feril í meistaraflokki að baki. Hún skaust fram á sjónarsviðið þegar hún varð Íslandsmeistari með Gróttu og var þá enn í 10. bekk.

Lovísa Thompson hefur verið í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu.
Lovísa Thompson hefur verið í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Færsla Lovísu:

„Síðustu dagar og vikur hafa verið erfiðar en mér hefur ekki liðið vel. Mér hefur þótt erfitt að gera það sem ég elska mest (handbolti) en líkaminn og hausinn hafa ekki verið að vinna saman. Ég ætla því að taka mér pásu frá handbolta eða þangað til að ég finn löngunina aftur.

Þetta skref er mér mjöög erfitt en þeir sem þekkja mig vita að ég hef lagt líf og sál í íþróttina lengi vel. Ég er búin að missa gleðina og var farin að valda sjálfri mér og liðsfélögum mínum vonbrigðum. Að mæta á æfingu var orðin kvöð og mér leið ekki vel inn á vellinum.

Líf mitt hefur gengið út á það að flestar ákvarðanir eru teknar út frá handboltalegu sjónarhorni, hvað er best svo það hagnist mér í handboltanum? Vissulega er þetta hugarfarið sem þarf til að verða afreksíþróttamaður en þegar ástríðan og gleðin er horfin þá er löngunin ekki til staðar.

Ástæða þess að ég vildi deila er að það er mikilvægt fyrir okkur að gera það sem veitir okkur ánægju og gera það á okkar eigin forsendum. Íþróttirnar kenna manni svo ótrúlega margt og eru ómetanlegar en geta líka snúist í andhverfu sína ef maður missir sjónar af því sem skiptir máli.

Þessa dagana fæ ég aðstoð og ráð úr ýmsum áttum (þakklát) og er staðráðin í því að nýta þetta ferli sem lærdóm en ekki sem skref aftur á bak. Ég er að læra að handbolti er ekki lífið en það mun taka tíma og ég ætla að nýta hann vel.

Að lokum vil ég segja að ég er öllum þeim sem hafa stutt við bakið á mér, liðsfélögum mínum og Val, ævinlega þakklát fyrir skilninginn og stuðning. Núna ætla ég að setja sjálfa mig í fyrsta sæti, læra að slaka á og finna gleðina á ný!

Ætla aðeins að sleppa takinu af Lovísu Thompson og vera bara Lovísa í smá!

Happy Birthday to me“

mbl.is