„Flautaðir úr leik í deildinni“

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, var vægast sagt ósáttur í …
Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, var vægast sagt ósáttur í leikslok. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég ætla að vera heiðarlegur og hundleiðinlegur og segja það að við vorum flautaðir úr leik í dag í Olísdeildinni. Við vorum flautaðir úr leik á Akureyri þegar Árni Snær Magnússon og Þorvar Bjarmi Harðarson dæmdu leik þar sem þeir tóku löglegt mark af okkur, þegar það voru 5 mínútur eftir í fyrri umferðinni og við erum að komast yfir í fyrsta skiptið eftir að hafa verið undir með sjö mörkum mest. Svo erum við flautaðir úr leik, ekki bara hérna í lokamómentinu, heldur síðustu tíu mínúturnar, ég veit ekki hvort það megi nota orðið skandall, en mér er skítsama og tímabilið er búið.“ 

„Kannski er ég blindur á þetta en við vorum flautaðir úr leik, ekki í fyrsta skiptið,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, sem var mjög pirraður eftir leik sinna manna gegn ÍBV í Olísdeild karla í kvöld. Arnar hefur mikið til síns máls en verulega hallaði á Gróttu í dómgæslunni síðustu tíu mínútur leiksins og þá var atvik í lokin þar sem dómararnir héldu lífi í vonum Eyjamanna að vinna leikinn, með því að stoppa leiktímann þegar 10 sekúndur voru eftir.

Stendur ekki steinn yfir steini í afsökunum

„Ég skil ekki þá ákvörðun, ég hefði skilið það ef þeir ætla að gefa tvær mínútur, þá geta þeir fríað sig þannig. Að dæma víti, 10 sekúndur eftir, enginn að biðja um neitt og þeir stoppa tímann. Örugglega bara af því að þeir vildu að ÍBV myndi vinna leikinn, eða allavega fá tækifæri til að vinna leikinn, það er eina skýringin sem ég sé, sem þjálfari Gróttu, að dómararnir vildu sjá ÍBV fá tækifæri til að vinna þennan leik.

Það er eina ástæðan, það var enginn að biðja þá um að stoppa tímann, það er engin ástæða til að stoppa tímann. Ég tala við þá í leikhléinu hjá ÍBV, þeir segja að þeir verði að stoppa tímann, eftir leikhléið þá segja þeir að hann hafi legið eftir. Þegar ég segi þeim að það skipti engu máli, það á ekkert að stoppa tímann þó að menn liggi eftir, þá segja þeir að það hafi verið útaf því að hann væri að tefja það að við tækjum vítið, samt stoppa þeir tímann innan við sekúndu eftir að brotið er á honum. Það stendur ekki steinn yfir steini, þetta er svo týpískt, einhverjir dómarar sem geta ekki viðurkennt mistökin og finna bara afsökun, afsökun, afsökun, afsökun. Það er óþolandi, menn geta gert mistök og ég skil það, en þegar menn geta ekki viðurkennt mistökin þá er það óþolandi,“ sagði Arnar Daði sem var skiljanlega mjög pirraður enda vonir Gróttu um að komast í úrslitakeppnina orðnar að engu. 

Fengið fáránlegt hrós fyrir ekki rassagt

Grótta spilaði leikinn frábærlega, allavega sóknarlega og voru með leikinn í höndunum þegar lítið var eftir.

„Fyrstu tíu mínúturnar spiluðust ekki eins og við óskuðum okkur, en í 50 mínútur eftir það spilaðist leikurinn nákvæmlega eins og við vildum. Við erum manni færri síðustu tíu mínúturnar, eitthvað rétt og annað alls ekki rétt. Ekki það að ég muni einhvern tímann hafa orku í að klippa þennan leik en þessar tíu mínútur í lokin, við áttum ekki séns, við bara áttum engan séns. Við vorum annað hvort manni færri á vellinum eða þeir með dómarana með sér, við erum að sjálfsögðu litla liðið og á útivelli og eitthvað bla, bla, bla. Ég ætla ekki að segja að ég sé orðlaus því ég er búinn að babla hérna endalaust en þetta er skandall.“

Ef Grótta hefði fengið stigið væri staðan allt önnur, þeir væru þá með 18 stig, stigi fyrir ofan Fram og stigi á eftir Aftureldingu sem mætast í síðustu umferðinni. Þá væri liðið einnig tveimur stigum á eftir KA og gætu með þriggja marka sigri á þeim komist alla leið upp í 7. sæti deildarinnar, eftir tap KA gegn Selfossi.

„Við gerðum nákvæmlega allt sem við þurftum að gera, við fiskuðum víti þegar það voru 10 sekúndur eftir, skorum úr vítinu og leikurinn á að vera búinn, en Ólafur Víðir og Vilhelm hérna sem hafa fengið fáránlegt hrós fyrir ekki rassgat undanfarið bara af því að þeir eru fyrrum leikmenn. Þetta er sama og Heimir Örn Árnason fékk hérna þegar hann byrjaði að dæma, menn þurfa aðeins að vinna sig inn hérna og sýna betri frammistöðu til að fá eitthvað hrós. Handboltasamfélagið er bara ekki stærra en þetta og það er verið að reyna að hrósa fyrir lítil og engin verk,“ sagði Arnar að lokum en vegna þess að Fram á innbyrðisviðureignir á Gróttu, þá er liðið úr leik í ár. 

Hannes Grimm reynir skot að marki Eyjamanna í kvöld.
Hannes Grimm reynir skot að marki Eyjamanna í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is