Erfið staða Álaborgarmanna

Aron Pálmarsson lék á sínum gamla heimavelli í Veszprém í …
Aron Pálmarsson lék á sínum gamla heimavelli í Veszprém í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Danska liðið Aalborg stendur höllum fæti í baráttu sinni við Veszprém um sæti í undanúrslitum Meistaradeildar karla í handknattleik eftir sjö marka ósigur, 36:29, í fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitunum í Ungverjalandi í kvöld.

Leikurinn var jafn lengi og staðan í hálfleik 17:16, Veszprém í hag, en Ungverjarnir náðu fljótlega góðu forskoti í síðari hálfleiknum. Liðin mætast aftur í Álaborg í næstu viku.

Aron Pálmarsson, sem var á fornum slóðum sem fyrrverandi leikmaður Veszprém, skoraði tvö mörk fyrir Aalborg í kvöld en Buster Juul-Lassen var markahæstur með sex mörk. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari liðsins.

mbl.is