Fram örugglega í úrslitaeinvígið

Kristrún Steinþórsdóttir sækir að Eyjakonum í Safamýrinni í kvöld.
Kristrún Steinþórsdóttir sækir að Eyjakonum í Safamýrinni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karen Knútsdóttir var markahæst í liði Fram þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik með þriggja marka sigri gegn ÍBV í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í Framhúsi í Safamýri í kvöld.

Leiknum lauk með 27:24-sigri Framarar sem unnu einvígið samanlagt 3:0 en Karen skoraði átta mörk fyrir Framara og var markahæst í sínu liði.

Framarar byrjuðu leikinn af krafti og Karen Knútsdóttir kom þeim 4:1 yfir eftir fimm mínútna leik.

ÍBV neitaði hins vegar að gefast upp og þeim tókst að minna forskot Framara í eitt mark, 3:4, eftir tíu mínútna leik.

Framarar voru með yfirhöndina það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og leiddi með þremur til fjórum mörkum.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir minnkaði muninn í þrjú mörk með marki úr víti undir lok fyrri hálfleiks og staðan því 15:12, Fram í vil, í hálfleik.

Framarar náðu mest sex marka forskoti í síðari hálfleik, 23:17, þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka.

Eyjakonum tókst að minnka forskot Framara í þrjú mörk á lokamínútunum en lengra komust Eyjakonur ekki og Fram fagnaði öruggum sigri.

Hafdís Renötudóttir átti frábæran leik í marki Framara og varði 13 skot, þar af eitt vítakast, en Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir fór mikinn fyrir ÍBV og skoraði 12 mörk.

Fram mætir annaðhvort Val eða KA/Þór í úrslitum Íslandsmótsins en Valur leiðir 2:1 í einvígi sínu gegn Akureyringum. Úrslitaeinvígið hefst hinn 20. maí.

Fram 27:24 ÍBV opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með þriggja marka sigri Framarar sem leikur til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í ár.
mbl.is