Leit upp til flestra í Framliðinu þegar ég var lítil

Mariam Eradze er klár í slaginn gegn Fram.
Mariam Eradze er klár í slaginn gegn Fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er mjög góð tilfinning, ég er að fá mér að borða og lesa Fréttablaðið og gíra mig upp í leikinn,” sagði Mariam Eradze, pollróleg í samtali við mbl.is í dag.

Mariam verður í eldlínunni með liðsfélögum sínum í Val er liðið mætir Fram í fyrsta leik úrslitaeinvígisins í handbolta í Safamýrinni í kvöld. Það lið sem er fyrr til að vinna þrjá leiki verður Íslandsmeistari.

Valur lék við KA/Þór í úrslitum á síðasta ári en vegna kórónuveirunnar var fyrirkomulaginu breytt. Þá gildu samanlögð úrslit úr tveimur leikjum á meðan nú er keppt upp í þrjú.

„Þetta er aðeins öðruvísi en þegar maður er kominn inn í leikinn er maður lítið að spá í því. Við einbeitum okkur bara að því sem við ætlum að gera í dag,“ sagði Mariam.

Mariam Eradze í leik gegn Fram.
Mariam Eradze í leik gegn Fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valsliðið tapaði úrslitaeinvíginu á síðasta ári en Mariam segir mótlætið hafa styrkt leikmenn. „Liðið er búið að vaxa saman. Það eru margar ungar í liðinu og hópurinn hefur þétt sig mikið saman eftir tapið í fyrra. Það er tvennt í stöðunni þegar þú tapar, það er að fara enn neðar eða rífa sig upp og við vorum staðráðnar í að rífa okkur upp.“

Valur vann einmitt KA/Þór í undanúrslitum, eftir tap gegn norðankonum í úrslitum á síðasta ári. „Við vildum ótrúlega mikið komast í úrslitin og það var mikilvægt fyrir okkur að ná að vinna þær á þeirra heimavelli, því það hefur reynst okkur erfitt. Við vildum gera betur en í fyrra og að minnsta kosti vinna einn útileik á móti þeim.“

Mariam er uppalin hjá Fram og hún sá fyrir sér úrslitaleiki gegn uppeldisfélaginu þegar hún samdi við Val.

Mariam Eradze sækir að marki KA/Þórs í undanúrslitum.
Mariam Eradze sækir að marki KA/Þórs í undanúrslitum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er 100 prósent þannig en ég hugsa lítið út í það þegar ég mæti á völlinn. Ég leit upp til flestra í Framliðinu þegar ég var pínulítil en ég er búin að venjast því að spila á móti þeim núna eftir fyrsta árið, þar sem ég spilaði oft á móti þeim,“ sagði Mariam.

Úrslitaeinvígið verður það síðasta í Safamýri, þar sem Fram er að flytja í Úlfarsárdal. Mariam á margar góðar minningar í Safamýrinni og hún viðurkennir að hún muni sakna íþróttahússins sem hún ólst upp í.

„Ég er hundfúl með það. Ég fæ nostalgíu þegar ég labba þangað inn. Ég á góðar minningar í Safamýrinni. Þetta var frábær staður til að alast upp og ég bjó þarna liggur við. Það er einhver sérstakur andi við þetta hús og aðrir leikmenn sem spila með öðrum liðum eru sammála að það verði leiðinlegt að spila ekki í Safamýri,“ sagði Mariam Eradze.

mbl.is