Teitur öflugur í grátlegu tapi

Teitur Örn Einarsson.
Teitur Örn Einarsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Teitur Örn Einarsson, landsliðsmaður í handknattleik, lék vel fyrir Flensburg þegar liðið mátti sætta sig við naumt 27:28-tap fyrir Kiel í þýsku 1. deildinni í dag.

Teitur Örn skoraði fjögur mörk og gaf fjórar stoðsendingar til viðbótar fyrir Flensburg.

Flensburg var með nauma forystu lengi vel en norski snillingurinn Sander Sagosen tók til sinna ráða, hjálpaði Kiel að snúa við taflinu, skoraði sigurmarkið, hans tíunda í leiknum, og tryggði þannig nauman sigur.

Fleiri Íslendingar voru í eldlínunni í þýsku deildinni í hádeginu þar sem annar Selfyssingur, Janus Daði Smárason, lék vel fyrir Göppingen án þess þó að komast sjálfur á blað.

Gaf hann fimm stoðsendingar í öruggum 27:22-sigri á N-Lübbecke.

Arnór Þór Gunnarsson lék með Bergischer en komst ekki á blað í 26:22-sigri á Leipzig.

Erlangen, þar sem Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari, tapaði þá 25:31 fyrir Füchse Berlín.

mbl.is