Finnur núllpunkt og aftur í gang

Thea Imani Sturludóttir lætur vaða gegn Fram.
Thea Imani Sturludóttir lætur vaða gegn Fram. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var rosalega skemmtilegt og gríðarlega mikilvægt að ná í þennan sigur,“ sagði Thea Imani Sturludóttir, stórskytta hjá Val, í samtali við mbl.is í kvöld.

Valur vann 27:26-heimasigur á Fram í öðrum úrslitaleik liðanna í Origo-höllinni á Hlíðarenda. Staðan í einvíginu er 1:1 eftir tvo æsispennandi leiki.

„Þetta var mjög hraður leikur og maður þurfti að vera með einbeitingu allan tímann. Hver sókn og hver vörn skipti gríðarlega miklu máli. Það var mjög gott að ná að halda áfram að standa vörnina sem við náðum upp í fyrsta leik og stoppa þannig fyrsta tempóið hjá Fram,“ sagði Thea um leikinn.

Hún átti góðan leik í kvöld, skoraði sjö mörk og var skotnýtingin hennar mun betri en í fyrsta leik. „Ég á ekki að bjóða upp á það sem ég sýndi í fyrsta leik. Þá stillir maður sig fyrir næsta leik, finnur núllpunktinn og fer aftur í gang.“

Thea innsiglaði sigur Valskvenna með að vinna boltann í lokasókn Fram, þegar Framarar gátu jafnað. „Ég var bara að hlaupa heim. Ég keyrði bara með rakettu í rassgatinu. Þú drífur þig heim og stendur vörnina.“

Liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki í einvíginu verður Íslandsmeistari. Þriðji leikurinn er í Safamýri næstkomandi fimmtudag. „Þetta er alltaf einn leikur í einu. Við fögnum núna í klefanum en um leið og við göngum út hefst undirbúningur fyrir næsta leik,“ sagði Thea.

mbl.is