Glæsilegur sigur gegn Dönum

Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur í íslenska liðinu í morgun.
Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur í íslenska liðinu í morgun. mbl.is/Óttar Geirsson

Strákarnir í U20 ára landsliði Íslands í handknattleik tryggðu sér í morgun annað tveggja efstu sætanna á Opna Norðurlandamótinu í Noregi með því að sigra Dani, 30:25.

Áður höfðu strákarnir unnið Norðmenn 25:24 og gert jafntefli við Svía, 35:35. Handbolti.is greinir frá þessu.

Ísland náði yfirburðastöðu í fyrri hálfleik gegn Dönum og að honum loknum var staðan 20:11. 

Ísland endaði með 5 stig en Danir með 2 stig. Svíar og Norðmenn eiga eftir að mætast í lokaleik mótsins og Svíar, sem eru með 3 stig, þurfa minnst þriggja marka sigur til að fara uppfyrir íslenska liðið á markatölu og vinna mótið. 

Mörk Íslands: Benedikt Gunnar Óskarsson 6/4, Þorsteinn Leó Gunnarsson 5, Andri Már Rúnarsson 4, Guðmundur Bragi Ástþórsson 3, Kristófer Máni Jónasson 3, Tryggvi Þórisson 3, Símon Michael Guðjónsson 2, Arnór Viðarsson 1, Einar Bragi Aðalsteinsson 1, Jóhannes Berg Andrason 1, Ísak Gústafsson 1.

Jón Þórarinn Þorsteinsson var með 44 prósent markvörslu í íslenska markinu í fyrri hálfleiknum en hann varði níu skot, þar af eitt vítakast.

Íslenska liðið er á leið á Evrópumótið í Portúgal þar sem það mætir Serbíu í fyrsta leik sínum á fimmtudaginn kemur.

mbl.is