Valsmenn stóðu vel í þýska stórliðinu

Magnús Óli Magnússon sækir að marki Flensburgar.
Magnús Óli Magnússon sækir að marki Flensburgar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valur mátti þola tap, 30:33, á útivelli gegn þýska stórliðinu Flensburg í B-riðli í Evrópudeild karla í handbolta í kvöld. Úrslitin þýða að Flensburg er í toppsæti riðilsins með 12 stig, en Valur er áfram í fjórða sæti með fimm stig.

Þrátt fyrir úrslitin fara Valsmenn langleiðina með að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum með sigri á spænska liðinu Benidorm á heimavelli 14. febrúar næstkomandi.

Mikið jafnræði var með liðunum framan af og munaði aðeins einu marki þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður, 7:6.

Þá tóku heimamenn í Flensburg við sér og með góðum kafla tókst liðinu að komast sex mörkum yfir, 14:8. Valsmenn sýndu hins vegar mikinn styrk og tókst að minnka muninn í tvö mörk, sem var munurinn í hálfleik, 16:14.

Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur hjá Val með fimm mörk í hálfleiknum, en níu leikmenn Vals komust á blað í fyrri hálfleik. Björgvin Páll Gústavsson stóð vaktina vel í markinu og varði átta skot, þar af eitt víti.

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og tókst með glæsilegum kafla að komast yfir í fyrsta skipti í stöðunni 20:19 og svo 21:20. Þá skoraði Flensburg þrjú mörk í röð og breytti stöðunni í 23:21. Eftir það var munurinn 2-4 mörk næstu mínútur og voru Valsmenn ekki sérlega líklegir til að jafna, gegn gríðarlega sterku þýsku liði, sem spilaði skynsamlega.

Benedikt Gunnar endaði markahæstur með átta mörk, þar af sex úr vítum. Tjörvi Týr Gíslason gerði fjögur mörk og þeir Aron Dagur Pálsson og Stiven Tobar Valencia voru með þrjú. Björgvin Páll Gústavsson varði 12 skot í markinu, þar af eitt víti, og skoraði eitt mark.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Flensburg 33:30 Valur opna loka
60. mín. Þorgils Jón Svölu Baldursson (Valur) fiskar víti
mbl.is