Elvar markahæstur gegn Kiel

Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk gegn Kiel.
Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk gegn Kiel. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elvar Örn Jónsson var annar tveggja markahæstu manna Melsungen í dag þegar liðið beið lægri hlut fyrir stórliði Kiel, 19:23, í þýsku 1. deildinni í handknattleik.

Reyndar dugðu þrjú mörk til þess en Elvar og Aidenas Malasinskas, sem skoraði úr þremur vítaköstum, voru markahæstu menn liðsins sem hafði aðeins skorað 13 mörk þegar níu mínútur voru eftir af leiknum.

Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt mark fyrir Melsungen sem er í 12. sæti af 18 liðum með 20 stig. Kiel er í þriðja sæti með 36 stig, á eftir Füchse Berlín sem er með 39 stig og Rhein-Neckar Löwen sem er með 37 stig.

mbl.is