Óvænt tap í toppbaráttunni

Ýmir Örn Gíslason og félagar töpuðu stigum í toppbaráttunni.
Ýmir Örn Gíslason og félagar töpuðu stigum í toppbaráttunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rhein-Neckar Löwen tapaði óvænt á útivelli gegn Lemgo í þýsku 1. deildinni í handbolta í kvöld, 30:33. Löwen mistókst þar með að jafna topplið Füchse Berlin á stigum.

Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá Löwen, sem er í fjórða sæti með 37 stig, en aðeins tvö stig skilja fjögur efstu liðin að.

Gummersbach gerði góða ferð til Leipzig og vann sterkan 34:30-útisigur í Íslendingaslag. Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach, en Hákon Daði Styrmisson komst ekki á blað. Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar liðið.

Rúnar Sigtryggsson þjálfar Leipzig, en Viggó Kristjánsson lék ekki með liðinu í kvöld vegna meiðsla, en hann verður raunar ekki meira með á yfirstandandi leiktíð. Leiupzig er í níunda sæti með 24 stig og Gummersbach í 11. sæti með 22.

Þá vann Melsungen 26:23-útisigur á Stuttgart. Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt mark fyrir Melsungen, en Elvar Örn Jónsson komst ekki á blað. Melsungen er í 12. sæti með 21 stig.

mbl.is