Okkar nánasta fólk skilur okkar stöðu

Anton Rúnarsson við sundlaugarbakkann í Grikklandi.
Anton Rúnarsson við sundlaugarbakkann í Grikklandi. mbl.is/Jóhann Ingi

„Þetta er búið að vera draumi líkast,“ sagði Anton Rúnarsson aðstoðarþjálfari Vals í samtali við mbl.is. Anton er á sínu fyrsta tímabili sem aðstoðarþjálfari liðsins en hann lék með því á árum áður og þekkir Hlíðarendafélagið afar vel.  

„Þetta er fyrsta tímabilið sem maður er í þessu hlutverki. Maður er búinn að læra helvíti mikið. Maður er í góðum höndum og í góðu teymi. Þetta er búið að vera ævintýri líkast. Það er hrikalega skemmtilegt að vera í svona spennandi og krefjandi verkefnum. Þetta er algjör draumur,“ sagði Anton.

Hann er staddur í Grikklandi og á leiðinni í seinni leik Vals og Olympiacos frá Grikklandi. Verður spilað í Aþenu klukkan 17. Er um sjöunda einvígi Vals í keppninni til þessa og því nóg um dýr ferðalög hjá leikmönnum og þjálfurum. Sjálfur er Anton eiginmaður og þriggja barna faðir.

„Fólk sýnir þessu skilning og veit um hvað þetta snýst. Fjölskyldur og okkar nánasta fólk skilur í hvaða stöðu við erum. Fólk er líka tilbúið að styðja við okkur.

Þetta gefur fólki mikið og umgjörðin sem við erum búnir að vera með fyrir krakka og aðra hefur verið mjög flott. Það eru allir með okkur í liði hvað það varðar,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert