Var dofinn af ánægju

Úlfar Páll með sigurverðlaunin í leikslok.
Úlfar Páll með sigurverðlaunin í leikslok. mbl.is/Jóhann Ingi

„Maður var dofinn af ánægju,“ sagði Úlfar Páll Monsi Þórðarson leikmaður Vals í samtali við mbl.is eftir að liðið varð Evrópubikarmeistari í handbolta með sigri á Olympiacos í vítakeppni í úrslitum í Aþenu í kvöld.

„Þetta var ferlega skrítið og svo kom það hægt og rólega að við vorum að vinna þetta dæmi. Þetta var frábær tilfinning og fá að upplifa þetta með þessum gaurum er einstakt,“ sagði hann.

Um 7.000 stuðningsmenn mættu á leikinn og voru lætin í stuðningsmönnum Olympiacos mögnuð.

„Ég hef aldrei spilað fyrir svona marga og upplifunin var frábær. Þetta var gæsahúð og allir voru á móti manni.

Mér leið allt í lagi þegar ég var inni á vellinum en svo þegar maður er kominn á bekkinn þá var maður stressaðri en ég hafði alltaf trú á því að við myndum ná þessu áhlaupi, þjarma að þeim og skila þessu heim,“ sagði hann.

En hvernig var að taka við Evrópubikarmeistaratitlinum og fagna með um 100 stuðningsmönnum Íslands í leikslok. „Ég er orðlaus. Það er ekki hægt að lýsa þessu með orðum. Þetta var út úr þessum heimi,“ sagði Úlfar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert