Staðsetningin er mótinu til framdráttar

„Galdurinn við þetta allt saman er að tapa ekki trúnni á því sem maður er að gera,“ segir Magnús Bragi Magnússon, hrossaræktandi á Íbishóli, en hann og eiginkona hans, Elisabeth Jansen, verða með þó nokkur hross á ræktunarbússýningunni á Landsmótinu á Hólum. Hann segir allt vera að mjakast í rétta átt á Íbishóli og kveður það afar jákvætt hversu vel hesturinn Óskasteinn fer af stað með afkvæmi. Búið sé að sýna átta af afkvæmum hans í fullnaðardómi og að sex þeirra hafi fengið yfir átta í aðaleinkunn og að öll þeirra séu með yfir átta í einkunn fyrir byggingu.

Stjörnur inni á milli

„Á ræktunarbússýningunni verðum við meðal annars með hryssurnar Drottningu, Skrautfjöður og Stillingu og hestana Sóma og Gand sem eru öll undan Óskasteini. Því miður getur Óskasteinn ekki farið með þar sem að hann fór í aðgerð í haust og er ekki alveg kominn í gírinn enn þá. Hann verður bara að bíða betri tíma. Afkvæmi hans geta í það minnsta minnt á hann,“ segir Magnús Bragi og bætir við að þrjú systkina Óskasteins verði einnig á sýningunni auk annarra hrossa. Þá kveður hann þau einungis ætla að mæta með eitt hross í aðrar greinar en ræktunarbússýninguna en hesturinn Snillingur fer í flokk gæðinga.

„Það eru stjörnur þarna inni á milli, alveg hreint rakin hross,“ segir hann.

Algjört stemningsmót

Eins og áður segir verður Landsmótið haldið á Hólum í Hjaltadal í ár og er Magnús Bragi einstaklega sáttur með þá ákvörðun.

„Ég held að þetta verði rosalega gaman, þetta er ofsalega skemmtilegt svæði. Ég held að það eigi eftir að verða gríðarleg stemning þarna. Það á eftir að verða greininni til framdráttar að halda mótið á þessum stað. Ég vona að þetta verði þarna aftur en það verður tíminn að leiða í ljós. Ég er samt nokkuð viss um að það yrði heillaskref,“ segir hann og kveðst viss um að mikill hátíðarbragur verði á Landsmótinu í ár.

„Þetta er ekki bara veisla í hrossum heldur verður þetta náttúrlega líka hálfgerð útihátíð. Algjört stemningsmót. Það er allt á þessu svæði. Fólk þarf ekki að tínast burt af svæðinu því það er hægt að sækja nánast allt þarna á staðnum. Það mun þjappa fólkinu enn frekar saman,“ segir Magnús Bragi og bætir við að lokum að þarna muni allar helstu drottningar og allir helstu kóngar hestamennskunnar hér á landi verða saman komin. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert