Vert að skoða að halda mótið alltaf á sama stað

Sigurbjörn ásamt sambýliskonu sinni Hlíf Sturludóttur en þau eiga saman ...
Sigurbjörn ásamt sambýliskonu sinni Hlíf Sturludóttur en þau eiga saman hesthús í Víðidal og koma þar nær daglega yfir vetartímann og eru dugleg að ríða út á þeim góðu reiðleiðum sem þar er að finna. mbl.is/Valgarður Gíslason

Sigurbjörn Magnússon er orðinn spenntur fyrir því að landsmót hestamanna hefjist enda mun viðburðurinn marka hápunktinn á löngu og ströngu ferli sem hófst fyrir rösklega tveimur árum. „Það var á vormánuðum 2016 að samningar náðust um að breyta út af vananum og láta hestamannafélagið Fák sjá um að halda landsmótið árið 2018 á félagssvæði sínu í Víðidalnum. Í framhaldinu var stofnað sérstakt einkahlutafélag, LM 2018 ehf., utan um verkefnið og verður landsmótið að þessu sinni á vissan hátt prófraun á það hvort framhald verður á því að halda mótin áfram með þessu sniði,“ segir Sigurbjörn og bætir við að gert sé ráð fyrir að sama fyrirkomulag verði á næsta landsmóti á Gaddstaðaflötum við Hellu.

Veitir aðhald og sveigjanleika

Í byrjun árs 2017 var Sigurbjörn fenginn til að gerast stjórnarformaður LM 2018 ehf. Hann segir þetta fyrirkomulag á mótshaldinu hafa ýmsa kosti í för með sér og skapa í senn aðhald og sveigjanleika fyrir Fák. „Fákur hefur lagt allan sinn metnað í að undirbúa viðburðinn sem best og fengið myndarlegan stuðning frá Reykjavíkurborg til að lagfæra keppnissvæðið og gera aðstöðuna alla hina glæsilegustu. Þær framkvæmdir munu síðan nýtast Fáksmönnum að mótinu loknu og styðja við starf félagsins,“ segir Sigurbjörn.

Landsmót 2018 er risastórt verkefni og má reikna með að viðburðurinn kosti um 120 milljónir króna. Með sölu á aðgöngumiðum tekst að mæta megninu af kostnaðinum en að auki koma til tekjur svo sem með sölu auglýsinga, beinu streymi frá mótinu og frá styrktaraðilum, og eins með því að leigja seljendum vöru og þjónustu pláss á svæðinu. Í aðdraganda mótsins lítur tekjuhliðin vel út, miðasala hefur farið ágætlega af stað og allar horfur eru á að takist að reka viðburðinn með afgangi. „Margir leggja hönd á plóg og munar mjög um framlag sjálfboðaliða úr röðum Fáksmanna og annars staðar frá, bæði í aðdraganda mótsins og á meðan mótið stendur yfir,“ segir Sigurbjörn. „Öll sú vinna sem lögð hefur verið í undirbúning landsmótsins fram til þessa er að skila sér í því að allt Fákssvæðið er orðið ákaflega fallegt og mun taka vel á móti landsmótsgestum. Svo er bara að vona að landsmótsblíðan skili sér.“

Eins og nefnt var hér að framan verður landsmót hestamanna næst haldið á Hellu árið 2020 og síðan árið 2022 á félagssvæði Spretts í Kópavogi. Segir Sigurbjörn að eftir þessi mót verði komin ágætis reynsla á hvaða fyrirkomulag henti best mótahaldi af þessum toga. Hann telur vel koma til greina að hestamenn sameinist jafnvel um að halda landsmót alltaf á einum og sama stað. „Á margan hátt er Víðidalurinn hentugasti staðurinn á landinu til að halda landsmót og eðlilegt að hestamenn skoði hvort tímabært sé að þeir komi sér saman um val á einum stað til að halda mótið. Með því að velja hentuga staðsetningu má bæði reikna með að auðveldara verði að ná fram ásættanlegum hagnaði af mótinu og þróa stefnu til lengri tíma um framkvæmdir og uppbyggingu til að gera umgjörðina sífellt glæsilegri í hvert sinn sem blásið er til landsmóts. Það gæti orðið hestamennskunni til framdráttar.“

Áhuginn kviknaði á unglingsárunum

Það er gaman að vinna við það sem maður hefur gaman af og því kemur ekki á óvart að Sigurbjörn kvarti ekki yfir því álagi sem hefur fylgt því að undirbúa mótið. Hann veit líka, eins og flestir hestmenn, að það virðist einhvern veginn alltaf hægt að finna tíma til að sinna hestunum þrátt fyrir aðrar annir daglegs lífs. „Stundum hugsa ég með mér þegar líður að jólum og fer að verða tímabært að taka hestana aftur í hús, hvernig ég eigi að finna tíma til að sinna þeim, en svo þegar þeir eru komnir gerist það bara einhvern veginn,“ segir Sigurbjörn, sem var táningur þegar hann smitaðist af hestabakteríunni:

„Ég var ekki alinn upp við hestamennsku en á unglingsárunum fékk ég tækifæri til að ríða út hjá frændfólki mínu á Kiðafelli í Kjós, þaðan sem ég er ættaður og geri út mína hestaútgerð á sumrin enn þann dag í dag. Eitt leiddi af öðru og fyrr en varði var ég farinn að stunda það af kappi að ríða út með hinum krökkunum á Kiðafelli og í Kjósinni. Loks keypti ég 17 ára gamall minn fyrsta hest árið 1976 af hinum góðkunna hestamanni Sveini Jóhannssyni á Varmalæk fyrir milligöngu míns ágæta vinar og kollega Jóhanns Péturs Sveinssonar heitins.“

Hestarnir næra sálina

Þar sem fjölskyldan átti jörð uppi í Kiðafelli hafði Sigurbjörn góðan og ódýran aðgang að sumar- og haustbeit fyrir hestana sína og til að byrja með hjálpuðu foreldrar Sigurbjörns honum að halda tvo hesta yfir veturinn. Það dró ekki úr áhuganum eftir að Sigurbjörn hóf laganám við Háskóla Íslands og tók samhliða því þátt í ýmsu pólitísku vafstri. „Þá naut ég þess að geta farið upp í hesthús til að safna kröftum með því að moka skít og viðra mig á góðum hesti og það sama gildir í dag þegar mig vantar góða hvíld frá lögmannsstörfum,“ segir hann.

Sigurbjörn man eftir því hvenær það var ljóst að hann myndi ekki læknast af hestaáhuganum. „Hestamennskan snýst ekki hvað síst um góðan félagsskap annarra hestamanna og það er fátt sem ég hef meira gaman af en að ferðast um landið á hestbaki í góðum hópi fólks. Það var einmitt í hópreið á mitt fyrsta landsmót sem ég fann þetta svo sterkt, en við fórum ríðandi saman heil hersing af knöpum og hestum úr Kjósinni til Þingvalla árið 1978. Það var afskaplega ánægjuleg ferð, eftirminnilegt landsmót og jafnframt það síðasta sem haldið var á þessum merka stað,“ segir hann. „Núna erum við hjónaleysin að fara í hestaferð strax eftir landsmót með góðum vinum og þá liggur leiðin í Öxarfjörð, með bökkum Jökulsár á Fjöllum og inn í Ásbyrgi.“

Unga fólkið má ekki missa tenginguna við hestinn

Sigurbjörn var lánsamur að eiga þess kost að vera í kringum hesta þótt foreldrar hans væru ekki hestamenn. Hann segir eðlilegt að hafa af því áhyggjur í dag að ungir Íslendingar kunni í vaxandi mæli að missa tenginguna við hestinn með þeim afleiðingum að það dragi smám saman úr nýliðun í samfélagi hestamanna. „Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í sportinu voru valkostirnir færri. Í mörgum landshlutum og í sveitum landsins var það helsta skemmtunin sem fólk gat stundað hversdags að fara í góðan útreiðartúr að kvöldi eftir heyverkin eða önnur störf til að lyfta sér upp, og stundum bikar með til að lyfta sálinni.“

Síðan þá hefur framboðið á alls kyns íþróttum og afþreyingu stóraukist og segir Sigurbjörn ekki sjálfgefið að hestaíþróttin geti keppt við alla hina möguleikana sem unga fólkið getur valið úr. „Lífsstíll fólks hefur líka breyst, t.d. með tíðari utanlandsferðum, og mörgum getur þótt hestasportið, þótt það sé ánægjulegt, vera of bindandi enda kalla hestarnir á að maður getur ekki leyft sér að fara mikið í burtu á vissum tímum árs – sérstaklega þegar hestar eru á húsi og þarfnast daglegrar umhirðu.“

Á móti kemur að óvíða í heiminum er aðgengi að hestum jafn gott og á Íslandi og segir Sigurbjörn að það sé einstakt að finna aðstöðu eins og Fákur hefur byggt upp innan borgarmarkanna. „Hestamannafélögin leggja sig líka fram við að greiða unga fólkinu leið inn í hestamennskuna og er t.d. metnaðarfullt reiðskólastarf fyrir börn rekið á sumrin á Fákssvæðinu og á vetrum hefur Fákur boðið ungum knöpum, sem eru að stíga sín fyrstu skref í hestahaldi, aðstöðu til að halda hesta á hagstæðu verði,“ segir Sigurbjörn og bætir við að það sé aldrei of seint að byrja og fullorðnum standi líka til boða að fara á námskeið hér og þar. „Þeir sem vilja þreifa sig áfram geta t.d. fengið að setjast á hest hjá einni af hestaleigunum og svo í framhaldinu farið í lengri skipulagða hestaferð til að máta sig við sportið og sjá hvort þeir uppgötva ekki eitthvað alveg einstakt á bakinu á góðum klár úti í íslenskri náttúru.“

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »