Ég mun reyna að lægja öldurnar

Jürgen Klinsmann.
Jürgen Klinsmann. Ljósmynd/AFP

„Þetta var tekið úr samhengi. Ég mun reyna að ná tali af honum og lægja öldurnar,“ sagði Jürgen Klinsmann, knattspyrnuspekingur í samtali við BBC.

Carlos Queiroz, þjálfari íranska landsliðsins, brást ókvæða við orðum hins þýska Klinsmann sem tjáði sig um menninguna sem hann taldi ríkja innan liðsins og hversu vel hún passaði við hinn tilfinningamikla þjálfara, Queiroz.

Taldi Queiroz að Klinsmann hafi dregið í efa heiðarleika sinn sem þjálfara og sagði ummæli hins þýska knattspyrnuspekings vera fótboltanum til skammar. Queiroz kallaði eftir því að Klinsmann yrði settur út úr greiningarteymi FIFA, sem leitt er af Arsene Wenger.

Klinsmann sagðist einungis hafa verið að lýsa hversu miklar tilfinningar íranska liðið sýnir á velli sem honum finnst passa vel við karakter hins portúgalska Queiroz.

„Mér finnst aðdáunarvert í raun hversu miklar tilfinningar þeir sýna. Þeir hoppa upp og niður á bekknum og Carlos, sem er virkilega tilfinningaríkur þjálfari, gefur mikið af sér til leikmanna á hliðarlínunni, bæði orku og alls kyns leiðbeiningar.“

Carlos Queiroz.
Carlos Queiroz. Ljósmynd/AFP
mbl.is