Ótrúlegt jafntefli í kaflaskiptum leik

Leikmenn Kamerún þakka stuðningsmönnum eftir leik. Kamerúnar sýndu karakter og …
Leikmenn Kamerún þakka stuðningsmönnum eftir leik. Kamerúnar sýndu karakter og jöfnðu leikinn með tveimur mörkum um miðbik seinni hálfleiks. AFP/Issouf Sanogo

Serbía og Kamerún gerðu 3:3 jafntefli í annarri umferð G-riðils heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Al Wakrah í Katar í dag. Bæði lið eiga þá enn möguleika á að komast í 16-liða úrslit.

Brasilía og Sviss eru með 3 stig hvort í G-riðlinum en Kamerún og Serbía með 1 stig. Leikur Brasilíu og Sviss hefst klukkan 16.

Jean Charles Castellette kom Kamerún í 1:0 á 29. mínútu. Dusan Tadic jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleiks og Sergej Milinkovic-Savic kom Serbíu í 2:1 áður en flautað var til hálfleiks.

Aleksandar Mitrovic kom Serbíu í 3:1 á 53. mínútu. Kamerúnar voru ekki af baki dottnir en varamaðurinn Vincent Aboubakar minnkaði muninn í 3:2 á 63. mínútu og Eric Maxim Choupo-Moting jafnaði metin fyrir Kamerún, 3:3, á 66. mínútu.

Aleksandar Mitrovic fékk fyrsta færi leiksins á 6. mínútu. Tadic fékk boltann á hægri vængnum og lagði hann út á Maksimovic sem lyfti boltanum inn á teiginn. Þar reis Mitrovic hæst en skalli hans fór vel yfir mark Kamerún.

Á 11. mínútu tók Mitrovic góðan þríhyrning við Tadic, lék svo á varnarmann hægra megin í teignum en skot hans úr nokkuð þröngu færi small í fjærstönginni. Kostic fékk boltann í kjölfarið en skaut hátt yfir vinstra megin úr teignum.

Aleksandar Mitrovic mundar skotfótinn. Skot hans small í stönginni á …
Aleksandar Mitrovic mundar skotfótinn. Skot hans small í stönginni á marki Kamerún. AFP/Andrej Isakovic

N'Koulou átti fyrsta skot Kamerúna að marki á 16. mínútu en skotið var hálfslappt utan teigs og fór framhjá marki Serbíu.

Á 17. mínútu barst boltinn til Mitrovic í teignum eftir klafs en fast skot hans fór rétt framhjá.

Kunde hafði betur í kapphlaupui við Maksimovic á 19. mínútu og náði föstu skoti á lofti hægra megin í teignum en Vanja Milinkovic-Savic var vandanum vaxinn í markinu.

Jean Charles Castelletto laumaði sér á fjærstöngina eftir hornspyrnu Kunde sem N'Koulou flikkaði áfram á fjær, 1:0 fyrir Kamerún á 29. mínútu. Það má segja að markið hafi komið nokkuð gegn gangi leiksins.

Jean Charles Castelletto skorar fyrsta mark Kamerún á HM í …
Jean Charles Castelletto skorar fyrsta mark Kamerún á HM í Katar gegn Serbíu. AFP/Guiseppe Cacace

Lið Kamerún óx ásmegin við markið og Serbar virtust slegnir út af laginu.

Kunde vann boltann á miðjunni á markamínútunni svo kölluðu og geystist af stað upp völlinn. Hann keyrði inn á teiginn og lét vaða á markið en Vanja Milinkovic-Savic varði skot hans vel. Kunde náði frákastinu og hamraði boltanum í fyrsta framhjá markinu.

Dusan Tadic fleytti boltanum inn á teiginn úr aukaspyrnu á fyrstu mínútu viðbótartímans í fyrri hálfleik og þar var það Strahinja Pavlovic sem var dauðafrír og náði góðum skalla upp í bláhornið, 1:1.

Strahinja Pavlovic fagnar jöfnunarmarki sínu fyrir Serbíu.
Strahinja Pavlovic fagnar jöfnunarmarki sínu fyrir Serbíu. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Á 3. mínútu í viðbótartíma skoruðu Serbar aftur. Zambo Anguissa tapaði boltanum á hættulegum stað. Zivkovic lagði boltann á Sergej Milinkovic-Savic sem lét vaða utan teigs og boltann söng í netinu neðst í nærhorninu. Serbar voru komnir til baka, 2:1

Sergej Milinkovic-Savic kemur Serbíu yfir í viðbótartíma fyrri hálfleiks og …
Sergej Milinkovic-Savic kemur Serbíu yfir í viðbótartíma fyrri hálfleiks og fagnar ógurlega. AFP/Adrian Dennis

Serbar byrjuðu fyrri hálfleikinn betur en fyrsta markið var Kamerúna. Serbar virtust slegnir út af laginu en þeir jöfnuðu sig þó nokkuð fljótt og komu til baka með tveimur mörkum í viðbótartíma fyrri hálfleiks og leiddu í leikhléi, 2:1.

Aleksandar Mitrovic kom Serbíu í 3:1 á 53. mínútu. Frábært samspil Serba í og við vítateig Kamerún endaði með afskaplega þægilegu færi fyrir markahrókinn Mitrovic við markteiginn.

Aleksandar Mitrovic leggur boltann í netið eftir frábært samspil Serba.
Aleksandar Mitrovic leggur boltann í netið eftir frábært samspil Serba. AFP/Giuseppe Cacace

Ekambi átti frekar máttlítið skot vinstra megin úr teignum á 62. mínútu sem Vanja Milinkovic-Savic átti ekki í neinum vandræðum með.

Varamaðurinn Vincent Aboubakar slapp inn fyrir vörn Serba á 64. mínútu og kláraði listavel með fallegri vippu yfir Vanja Milinkovic-Savic í marki Serbíu. Flaggið fór á loft en myndbandsdómgæsla úrskurðaði að markið skyldi standa, 3:2

Vincent Aboubakar vippar skemmtilega yfir Vanja Milinkovic-Savic í marki Serbíu.
Vincent Aboubakar vippar skemmtilega yfir Vanja Milinkovic-Savic í marki Serbíu. AFP/Andrej Isakovic

Aboubakar slapp aftur inn fyrir vörn Serba á 66. mínútu og lagði boltann á Eric Maxim Choupo-Moting sem renndi honum í netið af stuttu færi, 3:3 - þvílíkur viðsnúningur!

Eric Maxim Choupo-Moting fagnar jöfunarmarki sínu gegn Serbíu.
Eric Maxim Choupo-Moting fagnar jöfunarmarki sínu gegn Serbíu. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Mitrovic fékk fínt marktækifæri á 76. mínútu en Epassy varði vel frá honum af stuttu færi hægra megin í teignum.

Sergej Milinkovic-Savic átti skot utan teigs á 78. mínútu.

Á 87. mínútu átti Vincent Aboubakar ágætt skot af ansi löngu færi en Vanja Milinkovic-Savic sá við honum.

Einni mínútu síðar komst Filip Kostic í ágætt færi en sending hans eða skot náði ekki til Mitrovic og Epassy handsamaði boltann.

Á 89. mínútu átti Mitrovic skot úr teignum sem sveif framhjá marki Kamerún.

Á 5. mínútu viðbótartíma í seinni hálfleik átti Nicolas Nkoulou ágætt skot beint úr aukaspyrnu vinstra megin við vítateigshornið en Milinkovic-Savic í marki Serbíu var vandanum vaxinn.

Lokatölur 3:3.

Leikmenn Serbíu þakka stuðningsmönnum eftir leik.
Leikmenn Serbíu þakka stuðningsmönnum eftir leik. AFP/Antonin Thuillier

Lið Kamerún:

Mark: Devis Epassy.
Vörn: Collins Fai, Jean Charles Castelletto, Nicolas Nkoulou, Nouhou Tolo.
Miðja: Zambo Anguissa (Samuel Gouet 81.), Pierre Kunde (Gael Ondoua 67.), Martin Hongla (Vincent Aboubakar 55.).
Sókn: Brian Mbeumo (Georges-Kevin N'Koudou 81.), Eric Choupo-Moting, Karl Toko Ekambi (Christian Bassogog 67.).

Lið Serbíu:
Mark: Vanja Milinkovic-Savic.
Vörn: Nikola Milenkovic, Milos Veljkovic (Srdjan Babic 78.), Strahinja Pavlovic (Stefan Mitrovic 56.).
Miðja: Andrija Zivkovic (Nemanja Radonjic 78.), Sasa Lukic, Nemanja Maksimovic, Filip Kostic (Filip Djuricic 90+2).
Sókn: Dusan Tadic, Aleksandar Mitrovic, Sergej Milinkovic-Savic (Marko Grujic 78.).

Leikið er í dag á Al-Janoub leikvanginum í Al-Wakrah.
Leikið er í dag á Al-Janoub leikvanginum í Al-Wakrah. AFP/Issouf Sanogo
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert