Skilar hann hundruðum milljóna til Danmerkur?

Mohammed Kudus hefur leikið mjög vel fyrir Gana á HM.
Mohammed Kudus hefur leikið mjög vel fyrir Gana á HM. AFP/Khaled Desouki

Forráðamenn danska knattspyrnufélagsins Nordsjælland bíða nú spenntir eftir því hvað gerist hjá Mohammed Kudus, landsliðsmanni Gana og leikmanni Ajax í Hollandi, í janúarmánuði eða næsta sumar.

Kudus hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með Gana á HM í Katar en hann skoraði tvö mörk í gær þegar liðið knúði fram sigur á Suður-Kóreu, 3:2. 

Hann lék með Nordsjælland áður en hann fór til Ajax. Þangað seldi Nordsjælland hann sumarið 2020 fyrir um 75 milljónir danskra króna, eða tæplega einn og hálfan milljarð íslenskra króna.

Í samningnum var jafnframt ákvæði um að Nordsjælland fengi 15 prósent í sinn hlut af söluverði, að frádregnum fyrstu 75 milljónunum (dönskum), ef Ajax myndi selja hann áfram.

Tipsbladet í Danmörku telur raunhæft að Ajax geti nú selt þennan 22 ára gamla leikmann fyrir um það bil 300 milljónir danskra króna, eða tæpa sex milljarða íslenskra króna. Af því fengi Nordsjælland 33,75 milljónir danskra króna, sem gerir um 665 milljónir íslenskra króna.

Það yrði góð búbót fyrir danskt úrvalsdeildarfélag.

mbl.is