Van Gaal næsti þjálfari Belga?

Hinn 71 árs gamli Louis van Gaal fylgist með æfingu …
Hinn 71 árs gamli Louis van Gaal fylgist með æfingu hollenska liðsins í dag. AFP/Alberto Pizzoli

Louis van Gaal, þjálfari hollenska karlalandsliðsins í fótbolta, útilokar ekki að hann gæti tekið við belgíska landsliðinu eftir HM í Katar.

Undir stjórn van Gaals er Holland komið í 16-liða úrslit en Belgar féllu úr leik í riðlakeppninni og hætti Roberto Martínez með belgíska liðið í kjölfarið.

„Við ætlum að reyna að verða heimsmeistarar, svo sjáum við hvort það séu einhver tilboð á borðinu,“ sagði van Gaal á blaðamannafundi í dag. „Belgía er æðislegt land, með vinalegu fólki. Ég hef hugsað þennan möguleika,“ bætti hann við.

„Það verður að sannfæra eiginkonu mína Truus. Ég ræð mér sjálfur, en það eru sum lönd sem ég vil ekki búa í og sum lönd sem hún vill alls ekki búa í,“ bætti van Gaal við.

Ronald Koeman tekur við hollenska liðinu af van Gaal eftir heimsmeistaramótið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert