Englendingar þurfa að fara snemma að sofa

Kylian Mbappé hefur skorað fimm mörk á HM til þessa.
Kylian Mbappé hefur skorað fimm mörk á HM til þessa. AFP/Franck Fife

Dayot Upamecano, varnarmaður franska landsliðsins í knattspyrnu, hvatti leikmenn enska landsliðsins til þess að snemma að sofa fyrir leik liðanna á heimsmeistaramótinu í Katar á laugardaginn.

Þetta kom fram á blaðamannafundi franska liðsins í dag en England og Frakkland mætast í 8-liða úrslitum keppninnar í Al Khor.

Kylian Mbappé, sóknarmaður franska liðsins, hefur verið nánast óstöðvandi á mótinu til þessa en hann er markahæstur í Katar með fimm mörk í fjórum leikjum.

„Kylian [Mbappé] er einstakur sóknarmaður og það er enginn eins og hann í heiminum í dag,“ sagði Upamecano þegar hann ræddi liðsfélaga sinn í franska landsliðinu.

„Hann er í algjörum heimsklassa og það er mjög erfitt að verjast honum. Ég þekki það best sjálfur.

Þú þarft að fara snemma að sofa ef þú ætlar að reyna verjast honum,“ bætti franski miðvörðurinn við í léttum tón.

mbl.is