Förum í leikinn til þess að vinna

Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik verður í eldlínunni í ...
Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik verður í eldlínunni í leiknum við Króata á HM í dag. mbl.is/Hari

„Ég er orðinn nokkuð spenntur fyrir að leika minn fyrsta leik á stórmóti. Ekki skemmir fyrir að mæta Króötum sem taldir eru vera með eitt af sigurstranglegri liðum keppninnar,“ sagði Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson sem er einn sex leikmanna í íslenska landsliðshópnum sem taka þátt í heimsmeistaramóti í handknattleik karla í fyrsta sinn.

„Leikurinn verður prófraun fyrir okkur alla og mælikvarði á hvar við stöndum um þessar mundir,“ sagði Elvar Örn sem er hvergi banginn. Hann mun væntanlega fá það hlutverk að stjórna sóknarleik íslenska liðsins í leiknum við Króata í dag í Ólympíuhöllinni í München.

„Króatar eru með heimsklassa leikmenn  í öllum stöðum. Þar af leiðandi verður bara gaman að eiga við þá og vonandi verður viðureignin jöfn og spennandi. Guðmundur [Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari] og Gunnar [Magnússon aðstoðarþjálfari] hafa farið vel yfir alla þætti leiksins með okkur og þess vegna tel ég að við séum vel búnir undir leikinn.

Við erum fullir sjálfstrausts og ætlum okkur bara að kýla á þetta. Við gerum kröfur til okkar á þessu móti og viljum vinna fyrsta leik og leggja þar með drög að langtímamarkmiði okkar sem er að komast í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins. Við förum í alla leiki til þess að vinna, annað þýðir ekki,“ sagði Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik, ákveðinn þegar mbl.is hitti hann að máli eftir æfingu landsliðsins í Ólympíuhöllinni í gær.

Viðureign Íslands og Króatíu á HM hefst klukkan 17 í dag og verður fylgst með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is