Tvær framlengingar, vítakeppni - og Landin hetja Dana

Niklas Landin býr sig undir að verja í vítakastkeppninni gegn …
Niklas Landin býr sig undir að verja í vítakastkeppninni gegn Egyptum. AFP

Dönsku heimsmeistararnir eru komnir í undanúrslit á heimsmeistaramóti karla í Egyptalandi eftir sigur á heimamönnum eftir vítakastkeppni í æsispennandi og tvíframlengdum leik í Kaíró í kvöld, 39:38.

Danir mæta því Spánverjum eða Norðmönnum sem mætast kl. 19.30 í kvöld en þá fara hinir þrír leikir átta liða úrslitanna  fram.

Egyptar byrjuðu betur og voru komnir í 3:0 eftir sex mínútna leik. Þá loks komust Danir á blað og voru fljótlega búnir að jafna metin. Þeir sigldu síðan þremur mörkum yfir á lokaspretti fyrri hálfleiks og staðan var 16:13 í hléi.

Egyptar jöfnuðu fljótlega og komust nokkrum sinnum marki yfir. Danir svöruðu því með því að komast í 25:23 þegar tíu mínútur voru eftir en Egyptar jöfnuðu á ný. Síðan enn og aftur í 27:27 þegar tvær mínútur voru eftir.

Mikkel Hansen skorar eitt af 10 mörkum sínum fyrir Dani …
Mikkel Hansen skorar eitt af 10 mörkum sínum fyrir Dani í kvöld. AFP

Yahia Omar kom Egyptum í 28:27 þegar 45 sekúndur voru til leiksloka en Magnus Landin var eldsnöggur að jafna. Egyptar gerðu slæm mistök í kjölfarið þegar þeir misstu mann af velli fyrir að vera of margir inni á vellinum, og töpuðu jafnframt boltanum.

Fimm sekúndum fyrir leikslok tók Nikolaj Jacobsen þjálfari Dana leikhlé og stillti upp lokasókninni til að reyna að tryggja sigur. Mikkel Hansen átti misheppnaða sendingu út í hægra hornið og tíminn rann út.

Danir byrjuðu framlenginguna betur og voru 31:29 yfir eftir fyrri hálfleik hennar. Þeir héldu eins til tveggja marka forskot allan seinni hlutann. Wisam Nawar minnkaði muninn í 34:33 þegar hálf mínúta var eftir en Danir héldu boltanum þar til þrjár sekúndur voru eftir. Þá var dæmd á þá leiktöf en Mikkel Hansen gerði sig sekan um alvarleg mistök. Hann kastaði boltanum í burtu og fyrir vikið var dæmt vítakast á Dani og Hansen fékk rauða spjaldið. Mohammad Sanad jafnaði úr vítakastinu, 34:34, og tryggði Egyptum aðra framlengingu.

Egyptar skoruðu eina mark fyrri hálfleiks í seinni framlengingunni, Niklas Landin varði þrisvar í marki Dana, og staðan 35:34 fyrir Egypta að honum loknum.

Í seinni hálfleiknum var ekkert skorað fyrr en í blálokin og Landin hélt áfram Dönum á floti. Danir fengu vítakast þegar ein sekúnda var eftir og Elmasry fékk rauða spjaldið fyrir að hindra aukakast. Magnus Landin fór á vítalínuna og jafnaði með skoti í stöng og inn, 35:35.

Þar með var gripið til vítakastkeppni. Niklas Landin var áfram maðurinn sem gerði útslagið fyrir Dani. Hann varði fyrsta og fimmta vítakast Egypta og Lasse Svan tryggði sigurinn úr lokakasti Dananna. Þeir unnu þar með 4:3 og leikinn samtals 39:38.

Danmörk : Mikkel Hansen 10, Mathias Gidsel 6, Lasse J. Svan 6, Magnus Saugstrup Jensen 6, Magnus Landin Jacobsen 5, Henrik Mollgaard Jensen 2, Anders Zachariassen 1, Mads Mensah Larsen 1, Jacob T. Holm 1, Emil M. Jakobsen 1.

Egyptaland: Yahia Omar 11, Yehia Elderaa 8, Ali Zein 5, Ahmed Hesham 4, Mohammad Sanad 4, Ahmed Elahmar 3, Wisam Nawar 1, Mohamed Mamdouh 1, Ahmed Moamen 1.

Ahmed Elahmar tekur vítakast fyrir Egypta í leiknum í kvöld.
Ahmed Elahmar tekur vítakast fyrir Egypta í leiknum í kvöld. AFP
mbl.is