Hann vildi slást við dómarann

Leikmenn Bjarnarins fagna í kvöld.
Leikmenn Bjarnarins fagna í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Edmunds Induss, leikmaður Bjarnarins, spjallaði við mbl.is eftir 3:1-sigurinn á Esju í Hertz-deild karla í íshokkí í kvöld. Eftir mikla rekistefnu og átök gengu leikmenn Esju af velli þegar rúm mínúta var til leiksloka og neituðu að klára leikinn. 

„Við vorum frábærir í öllum leikhlutunum en svo var mikil barátta í leikslok. Allir köstuðu af sér hönskunum, en svona er þetta í hokkí. Svo endaði þetta með að Esja fór út af þegar ein mínúta var eftir. Það er ekkert hægt að gera í því núna,“ sagði Edmunds áður en hann hélt áfram. 

„Þeir voru fúlir út í dómarann, en við vitum ekki af hverju. Einn leikmaður Esju vildi slást við dómarann. Það er svakaleg barátta þegar staðan er 2:1 því Esja vill vinna alla leiki. Þetta byrjaði með að menn voru að ýtast og svo endaði þetta í slagsmálum.

Sigurinn var lífsnauðsynlegur fyrir Björninn, sem á enn veika von á að komast í úrslit deildarinnar. 

„Þetta var seinasti leikurinn á árinu og það er gott að fara í jólin og áramótin með sigur. Það er hins vegar nóg eftir og við þurfum að gera okkur besta og sjá hvað við náum langt,“ sagði Edmunds Induss að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert