Shouse er hættur

Justin Shouse.
Justin Shouse. mbl.is/Árni Sæberg

Körfuknattleiksmaðurinn Justin Shouse, leikmaður Stjörnunnar, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna en hann greindi frá þessu í færslu á Facebook-síðu sinni í gærkvöld.

„Á morgun er sumardagurinn fyrsti á Íslandi og á sama tíma hefst nýr kafli í lífi mínu. Ég ákvað í febrúar að þetta yrði mitt síðasta tímabil í körfunni,“ segir Justin en þessi 35 ára gamli leikstjórnandi hefur svo sannarlega sett mark sitt á íslenskan körfubolta frá því hann hóf sinn feril hér á landi árið 2004.

Shouse lék fyrst með Drangi í Vík í Mýrdal, þaðan lá leiðin til Snæfells og hann hefur leikið með Stjörnunni frá árinu 2008. Hann fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2011 og lék með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í Luxemborg árið 2013. Shouse hefur fjórum sinnum orðið bikarmeistari, einu sinni með Snæfelli og þrisvar með Stjörnunni og varð tvívegis fyrir valinu sem leikmaður ársins, 2012 og 2013.

Shouse gat ekki beitt sér að fullu á þessu tímabili eftir að hann fékk þungt höfuðhögg í leik gegn Njarðvíkingum í byrjun árs og var frá í langan tíma eftir það.

mbl.is