Hefðum getað klárað þetta

Berglind Gunnarsdóttir með boltann gegn Keflavík í kvöld.
Berglind Gunnarsdóttir með boltann gegn Keflavík í kvöld. mbl.is/Hari

„Þetta er svekkjandi, fyrst og fremst. Við töpum með tveimur stigum eftir framlengingu eftir að hafa barist í allan dag,“ sagði Berglind Gunnarsdóttir, fyrirliði Snæfells, eftir 83:81 tap gegn Keflavík í framlengdum undanúrslitaleik Malt-bikars kvenna í körfubolta í Laugardalshöllinni í kvöld.

Berglind var fyrst og fremst óánægð með varnarleik liðsins en þrátt fyrir að hafa verið undir nær allan tímann voru Snæfellingar hársbreidd frá því að stela sigrinum undir lokin.

„Við skorum hérna 81 stig en við erum líka að fá á okkur 83 sem er bara allt of mikið, varnarleikurinn hefði mátt vera betri í dag. Við hefðum samt getað klárað þetta þegar 40 sekúndur voru eftir en þær komast aftur inn í leikinn og svo töpuðum við þessu. Það tekur á að elta en ef við náum ekki að spila betri vörn og halda þeim í lægra stigaskori, þá erum við að elta allan leikinn og þá er þetta miklu erfiðara.“

Keflavík fór illa með Snæfell í deildarleik liðanna um síðustu helgi en Berglind segir ekkert að marka það, jafnframt telur hún liðið vera að spila undir getu en Snæfell situr í 7. sæti deildarinnar.

„Leikurinn í síðustu viku var bara varla til að taka með, við spiluðum í 20 mínútur og vorum svo ekki með í þeim seinni. Við stöldruðum ekkert lengi við hann, það vantaði bara áræðni og við töluðum aðeins um það. Það þarf að mæta og spila í 40 mínútur og ef við gerum það, þá getum við spilað eins og hérna í kvöld en varnarleikurinn þarf að vera betri.

Við erum búnar að vera að spila undir getu í vetur, þó að við höfum misst leikmenn í meiðsli og barneignir. Það hefðu alveg eins getað verið liðin í 7. og 8. sæti að spila þennan úrslitaleik. Mér finnst staðan okkar í deildinni ekki alveg segja til um gæði liðsins.“

Að lokum vonar hún að frammistaðan í kvöld gefi Snæfellingum byr undir báða vængi fyrir endasprettinn í deildinni.

„Auðvitað er svekkjandi að tapa og við hefðum átt að vinna hérna í dag en við tökum það góða úr þessum leik með okkur í restina af deildinni og reynum að sækja einhverja fleiri sigra þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert