Slóvenskur bakvörður til Hauka

Matic Macek, nýjasti leikmaður Hauka.
Matic Macek, nýjasti leikmaður Hauka. Ljósmynd/KK Šentjur

Körfuknattleiksdeild Hauka hefur gert samning við slóvenska bakvörðinn Matic Macek um að spila með karlaliði félagsins á næsta keppnistímabili en umboðsmaður Macek staðfesti þetta í kvöld.

Macek spilaði með slóvenska liðinu Zlatorog Lasko í fyrra sem varð m.a. meistari í Alpe Adria bikarkeppninni sem er haldin milli liða frá Austurríki, Tékklandi, Króatíu, Ungverjalandi, Slóvakíu og Slóveníu. Í þeirri keppni skoraði Macek að meðaltali tíu stig í leik en hann er 188 sentimetrar á hæð og fæddur árið 1994. Þar áður lék hann með liði KK Sentjur.

Í úrvalsdeildinni í Slóveníu spilaði hann tíu leiki á síðasta tímabili og var að meðaltali með sjö stig og tvær stoðsendingar.

Breyttar reglur Körfuknattleikssambands Íslands leyfa nú félögum að semja við eins marga leikmenn innan Evrópusambandsins og þau kjósa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert