Tímamótaskref til jafnréttis í Borgarnesi

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir er burðarás hjá kvennaliði Skallagríms.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir er burðarás hjá kvennaliði Skallagríms. mbl.is/Hari

Körfuknattleiksdeild Skallagríms í Borgarnesi hefur stigið tímamótaskref til jafnréttis innan deildar félagsins með því að hafa jafna skiptingu styrktarsamninga milli karla- og kvennaliðs félagsins.

„Aðalstjórn körfuknattleiksdeildar Skallagríms ásamt meistaraflokksráðum karla og kvenna og yngri flokka ráði hafa undirritað samkomulag þess efnis að jöfn skipting verði á öllum styrktar- og samstarfssamningum sem deildin aflar hverju sinni. Með þessu er tryggt jafnræði milli karla og kvennaliða Skallagríms sem og yngri flokka þegar kemur að úthlutun þess fjármagns sem aflað er frá styrktaraðilum,“ segir í tilkynningu frá Skallagrími.

„Um tímamótasamkomulag er að ræða því eftir því sem best er vitað er körfuknattleiksdeild Skallagríms með fyrstu íþróttafélögunum sem stígur þetta skref innan körfuknattleikshreyfingarinnar á Íslandi. Aðalstjórn lýsir yfir mikilli ánægju með samkomulagið og skorar á önnur félög að huga vel að jafnréttismálum innan sinna raða.“

mbl.is