Dreymir um landsliðið

Kristen McCarthy
Kristen McCarthy mbl.is/Golli

Kristen Denise McCarthy, bandarískan leikmann Snæfells, dreymir um að spila með íslenska kvennalandsliðinu í körfuknattleik einn daginn en hún sótti um íslenskan ríkisborgararétt fyrr í haust.

Kristen Gunnarsdóttir, eins og hún vill láta kalla sig, kom fyrst til Íslands árið 2014 til þess að spila með Snæfelli í úrvalsdeild kvenna og heillaðist af landi og þjóð. Hún endursamdi við Snæfell árið 2017 og hefur spilað í Stykkishólmi síðan en hún er leikmaður októbermánaðar í Dominos-deild kvenna að mati Morgunblaðsins.

„Ég er mjög ánægð með þessa byrjun okkar á tímabilinu. Við höfum unnið fimm leiki og tapað einum sem verður að teljast ágætis árangur. Í fullkomnum heimi værum við ósigraðar en við deilum efsta sætinu með KR eftir fyrstu sex leikina og við getum verið stoltar af því. Markmiðið fyrir tímabilið var að berjast á toppi deildarinnar og það er því mjög mikilvægt að byrja tímabilið jafn vel og við höfum gert. Við erum ekki alveg komnar á þann stað sem við viljum vera á sem lið og við getum ennþá bætt okkur mikið. Það er þess vegna jákvætt að vera á toppi deildarinnar, vitandi það, að við getum gert ennþá betur.“

Kristen hefur verið frábær í upphafi tímabils með Snæfelli og hefur hún skorað 30 stig, tekið 13 fráköst og gefið 4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Þrátt fyrir það er leikmaðurinn staðráðinn í að bæta sig enn frekar.

Geta farið alla leið

„Ég er nokkuð sátt með mína spilamennsku í fyrstu leikjum tímabilsins en að sama skapi veit ég að ég get gert betur. Það sem hefur kannski mest vantað upp á hjá bæði mér og liðinu er að byrja leikina af meiri krafti en við höfum verið að gera. Við höfum lent undir í nánast öllum leikjum sem við höfum spilað, í upphafi tímabilsins, og það er eitthvað sem ég sjálf þarf að laga. Ég þarf sjálf að vera öflugri í upphafi leikja og reyna að klára leikina í fyrstu leikhlutunum.“

Snæfell hefur farið virkilega vel af stað í deildinni í ár og er í efsta sæti deildarinnar, ásamt KR, með tíu stig eftir fyrstu sex leiki tímabilsins.

„Ég tel Snæfell vera með lið sem getur farið alla leið í ár og landað Íslandsmeistaratitlinum. Það er mikið af mjög hæfileikaríkum leikmönnum í liðinu, bæði í byrjunarliðinu og svo leikmenn sem geta komið inn af bekknum. Tímabilið í fyrra var mjög erfitt fyrir okkur því okkur vantaði einfaldlega mannskap. Stundum vorum við nánast ekki með bekk í sumum leikjum sem við spiluðum og það tók mikið á. Við erum með frábæra þjálfara í ár sem vinna mjög vel saman og það eru í raun engin takmörk fyrir því, hversu langt við getum farið, ef allir leikmenn liðsins haldast heilir.“

Ingi Þór Steinþórsson hætti nokkuð óvænt með kvenna- og karlalið Snæfells í sumar til þess að taka við karlaliði KR en hann hafði stýrt skútunni í Stykkishólmi frá árinu 2009. Baldur Þorleifsson, fyrrverandi aðstoðarþjálfari Inga, tók við liðinu og hefur hann gert góða hluti með liðið í fyrstu leikjum tímabilsins.

Sjá allt viðtalið við Kristen í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert