Ótrúleg viðureign og yfir 300 stig

Russell Westbrook átti frábæran leik í ótrúlegri viðureign í nótt.
Russell Westbrook átti frábæran leik í ótrúlegri viðureign í nótt. AFP

Boðið var upp á hreint ótrúlega viðureign þegar San Antonio Spurs og Oklahoma City Thunder mættust í NBA-deildinni í körfuknattleik í gærkvöld. Þegar búið var að skora yfir 300 stig eftir tvær framlengingar fór San Antonio með sigur af hólmi, 154:147.

Þegar er talað um leikinn sem einn þann besta á tímabilinu. San Antonio lét þristunum rigna og hitti úr 16 af 19 tilraunum sínum. Þá náði Oklahoma City Thunder að vinna upp 16 stiga mun og tryggja framlengingu þegar skammt var eftir.

LaMarcus Aldridge bættist í hóp þeirra sem skorað hafa yfir 50 stig í leik þegar hann setti 56 stig fyrir Spurs. Enginn leikmaður liðsins hefur skorað svo mikið síðan Tony Parker setti 55 í leik árið 2008. Þá skoraði Russell Westbrook sína 13. þreföldu tvennu á tímabilinu fyrir Thunder. Skoraði 24 stig, tók 13 fráköst og gaf 24 stoðsendingar.

Alls voru skoruð 301 stig í leiknum sem er það besta í leik í deildinni á tímabilinu. Síðasti NBA-leikur, sem ekki var svokallaður stjörnuleikur, og fór yfir 300 stig var árið 2006 þegar Phoenix Suns vann Brooklyn Nets 161:157 eftir tvöfalda framlengingu.

Öll úrslit næturinnar má sjá hér að neðan.

Miami Heat – Boston Celtics 115:99
Denver Nuggets – Los Angeles Clippers 121:100
San Antonio Spurs – Oklahoma City Thunder 154:147
Sacramento Kings – Detroit Pistons 112:102

mbl.is