Hvað hefði gerst ef Helena hefði farið í KR?

Benedikt Guðmundsson ræðir við sitt lið.
Benedikt Guðmundsson ræðir við sitt lið. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, var hrærður þegar mbl.is ræddi við hann eftir 81:84-tap fyrir Val í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta í kvöld. KR er úr leik, þar sem Valur vann einvígið 3:1.

Leikirnir í seríunni voru jafnari en flestir bjuggust við og áttu fáir von á að KR myndi ná að vinna Val, langbesta lið landsins síðustu mánuði. Benedikt var svekktur en á sama tíma stoltur eftir leik. 

„Það er erfitt að segja hvað vantar upp á. Þetta ræðst í blálokin og þessir leikir eru búnir að vera svona. Það vantar ógeðslega lítið upp á. Það er það sem er mest svekkjandi, það vantaði svo lítið upp á til að leggja þetta ofurlið.

Við byrjuðum allt of rólega í kvöld en eftir það voru þær flottar. Ég er ógeðslega sár en á sama tíma hrikalega stoltur. Þessi blanda er skrítin og ég veit ekki alveg hvernig ég á að vera,“ sagði Benedikt. 

Orla O'Reilly, einn besti leikmaður KR, lék ekki síðustu mínúturnar vegna höfuðhöggs sem hún fékk í fjórða leikhluta. Það reyndist áfall fyrir KR, en Benedikt var óviss hvort frávera hennar hafi haft úrslitaáhrif. 

„Þetta leit ekki vel út. Hún sá tvöfalt og það kom aldrei til greina að setja hana inn á aftur. Hennar heilsa er númer eitt, tvö og þrjú. Þetta er bara leikur. Það er alltaf hægt að segja ef, ef hún hefði ekki meiðst. Hvernig hefði þetta farið þá? Alveg eins og við getum spurt hvað hefði gerst ef Helena hefði farið í KR en ekki Val. Það er endalaust hægt að segja ef.“

Benedikt tók við kvennalandsliðinu á dögunum og er óvíst hvort hann haldi áfram þjálfun KR. „Ég er ekki viss. Við eigum eftir að ræða um þá hluti,“ sagði Benedikt Guðmundsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert