Meistararnir í kjörstöðu

Kevin Durant treður með tilþrifum í kvöld.
Kevin Durant treður með tilþrifum í kvöld. AFP

Golden State Warriors er komið í kjörstöðu í einvígi sínu gegn LA Clippers í 1. umferð í úrslitakeppni Vesturdeildar NBA-körfuboltans í Bandaríkjunum, eftir 113:105-sigur á útivelli í kvöld. 

Golden State er nú með þrjá sigra gegn einum og dugir sigur á heimavelli, aðfaranótt fimmtudags til að komast áfram í næstu umferð. Meistararnir unnu tíu stiga sigur í fyrsta leikhluta og tókst Clippers ekki að jafna eftir það. 

Kevin Durant og Klay Thompson fóru fyrir Golden State. Durant skoraði 33 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar á meðan Thompson skoraði 32 stig. Shai Gilgeous-Alexander skoraði 25 stig fyrir Clippers og Danilo Gallinari 16. 

mbl.is