Það er líka hungur til staðar hjá okkur

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR-inga.
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR-inga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingi Þór Steinþórsson þjálfari KR-inga segir að sínir menn séu vel stemmdir fyrir úrslitaeinvígið við ÍR en fyrsti úrslitaleikur Reykjavíkurliðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Dominos-deild karla fer fram í DHL-höll þeirra KR-inga í Frostaskjólinu í kvöld.

KR-ingar þekkja þessa stöðu vel en vesturbæjarliðið hefur hampað Íslandsmeistaratitlinum undanfarin fimm ár en ÍR-ingar hafa komið allra liða mest á óvart á leiktíðinni. ÍR hafnaði í 7. sæti í deildinni en hefur slegið út bæði Stjörnuna og Njarðvík, liðin sem enduðu í tveimur efstu sætunum, á leið sinni í úrslitin.

„Við höfum náð að undirbúa okkur mjög vel og við erum allir klárir í slaginn,“ sagði Ingi Þór í samtali við mbl.is.

„ÍR-liðið hefur staðið sig frábærlega. Hungur, elja og vinnusemi hefur verið aðall ÍR-inga og við verðum að vera tilbúnir að mæta þeim. Það er engin tilviljun að ÍR sé komið á þennan stað. Það hefur staðist prófin á sterkum útivöllum í oddaleikjum og það segir meira en mörg orð um liðið. ÍR-ingar eru með góða leikmenn í öllum stöðum og þeir hafa náð vel saman.

En það er líka hungur til staðar hjá okkur og við ætlum okkur sjálfsögðu að vinna þetta einvígi. Að sjálfsögðu hjálpar það til að við erum með leikmenn sem hafa gengið í gegnum þetta allt áður og hafa staðið uppi sem sigurvegarar undanfarin ár. Það er þekking til staðar í því sem er að fara í gang og við munum nýta okkur það,“ segir Ingi Þór en KR vann Keflavík 3:0 í 1. umferðinni og hafði svo betur gegn Þór Þorlákshöfn 3:1.

Þetta snýst um að vinna

„Við erum enn að bæta okkar leik og það er svigrúm fyrir að gera betur. Við höfum ekkert verið að spila geggjaðan körfubolta nema kannski á köflum. Við þurfum að fá lengri og betri kafla í okkar leik með betri spilamennsku og tengja saman vörn og sókn. En þetta snýst um að vinna. Við höfum náð því og ætlum að halda því áfram. ÍR-ingar hafa verið vel studdir af sínu fólki og ég set kröfu á mitt fólk að toppa það og að það komi og styðji við bakið á okkur,“ sagði Ingi Þór.

Ingi Þór segir að Emil Barja sé búinn að glíma við meiðsli í mjöðm en hann reiknar með því að hann verði klár í slaginn í kvöld. „Við erum með gott teymi í kringum okkur og það sér til þess að hann verði í lagi.“

Flautað verður til leiks í DHL-höll­inni klukk­an 19.15 og verður leik­ur­inn í beinni texta­lýs­ingu hér á mbl.is.

mbl.is