Milwaukee tók forystuna

Giannis Antetokounmpo innan um þrjá andstæðinga í leiknum í nótt.
Giannis Antetokounmpo innan um þrjá andstæðinga í leiknum í nótt. AFP

Draumatímabil Milwaukee Bucks heldur áfram en í nótt vann liðið fyrsta leikinn gegn Toronto Raptors í úrslitum austurdeildarinnar í NBA-körfuboltanum 108:100. 

Fyrstu tveir leikir fara fram á heimavelli Milwaukee. Vinna þarf fjóra leiki og mun liðið sem hefur betur mæta annaðhvort Golden State eða Portland í úrslitarimmunni. 

Brook Lopez skoraði 29 stig og tók 11 fráköst fyrir Milwaukee. Grikkinn Giannis Antetokounmpo lét 24 stig nægja í þetta skiptið en tók 14 fráköst. Nikola Mirotic sem lék með Spánverjum gegn Íslendingum á EM í Berlín var nokkuð drjúgur en hann skoraði 13 stig og tók 6 fráköst. Pau Gasol kom hins vegar ekki við sögu. 

Í Toronto er fólk vanara því að komast eitthvað áleiðis í NHL-deildinni í íshokkíi frekar en NBA. Eftir gott tímabil verður fróðlegt að sjá hvernig Toronto stendur sig í þessari rimmu. Kawhi Leonard lét ekki sitt eftir liggja og skoraði 31 stig og tók 9 fráköst. Kyle Lowry var með 30 stig. 

mbl.is